Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 17:06:04 (4246)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að mér gefist tími til að svara báðum spurningunum. Ég vil kannski bara byrja á að svara þessu með Icesave og ESB. Það vita allir sem hafa fylgst með þessu máli að Bretar og Hollendingar hafa beitt fyrir sig stöðu sinni í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með því að stoppa það af að við fáum annan hluta lánsins. Þeir stóðu líka fyrir því að skrifað var svona ört og hratt undir samninginn og ástæðan var að gera það áður en gengið væri til aðildarviðræðna af því að þeir sögðu að þeir mundu beita sér gegn því að við gætum sótt um aðild að Evrópubandalaginu. Ég held að það sé alveg ljóst og hafi skýrt sig sjálft.

Varðandi samninginn, ég get stutt fyrirvarana, ég veit ekki hvort ég geti stutt ríkisábyrgðina, það verður bara að koma í ljós eftir að þetta fer til nefndar.