Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 17:26:58 (4248)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er ekki alveg jafnsannfærður og hann um að hér sé búið að girða fyrir einhverja hluti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi þeirra fyrirvara sem hann og fleiri hafa staðið hér að að samþykkja hvort hann telji í fyrsta lagi að þessir fyrirvarar hafi einhver áhrif eða gæti að hag Íslendinga varðandi gjaldfellingarákvæðin. Í öðru lagi langar mig að spyrja hvort fyrirvararnir hafi einhver áhrif á þær greinar í þessum samningi þar sem m.a. er fjallað um frestun réttinda íslenska ríkisins, þ.e. að lánveitandann virðist alltaf eiga rétt á þeim aurum sem við hugsanlega fáum sem tengjast þessu máli. Eru fyrirvararnir þess eðlis að þeir taki á einstökum greinum í þessum samningi sem skipta verulegu máli, eins og gjaldfellingarákvæðin, eða eru fyrirvararnir (Forseti hringir.) almenns eðlis eins og efnahagslegi fyrirvarinn?