Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 17:30:45 (4251)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga er það ótvírætt að ekki verður um neina ábyrgð á hendur ríkissjóði að ræða fyrr en við erum búin að samþykkja það hérna. Samningurinn gæti verið gildur og hann hafi kröfu á innlánstryggingarsjóð en það er þá ótryggð krafa. Það er væntanlega lögfræðileg túlkun hvort samningurinn í heild sinni væri þá gildur eða hvort þetta er eins og ég held.

Hvað varðar gjaldfellingarákvæðið, ef lánið er gjaldfellt er ljóst að greiða þarf upphæð sem getur numið allt að, segjum 30% af landsframleiðslu. Ríkisábyrgðin gerir ráð fyrir því að við getum greitt að hámarki 6% af landsframleiðslu, þá eru 24% sem standa út af, það er ótvírætt í mínum huga. Sama er með ef tekið verður af þeirri upphæð sem fer upp í þessar 75% endurheimtur. Ótvírætt er í mínum huga að það brýtur efnahagslegu forsenduna og þar af leiðandi verður afgangur sem þá annaðhvort verður ekki greiddur eða nýtt Alþingi tekur ákvörðun um að greiða upphæðina.