Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 17:32:05 (4252)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann fór ágætlega yfir hversu meingallað þetta mál er. Hann fór líka yfir vinnslu málsins og ég vildi að hv. þingmaður mundi staðfesta það vegna þess að hér hefur öðru verið haldið fram. Ég og hv. þingmaður sátum saman á sameiginlegum fundi viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar þar sem ég spurði gesti sem voru undir forustu pólitísks aðstoðarmanns fjármálaráðherra hvenær við fengjum að sjá samninginn. Þá var það sagt hreint og klárt að við fengjum ekki að sjá hann en hugsanlega gætum við fengið Ríkisendurskoðun til þess að túlka samninginn ofan í okkur.

Í kjölfarið hóf stjórnarandstaðan að fylgja því eftir að fá samninginn. Að vísu fór hann á netið áður en þingmenn fengu hann, en ég vildi að hv. þingmaður mundi staðfesta þetta þannig að það liggi alveg fyrir í þingtíðindum.