Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 18:09:18 (4267)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur skilning hennar á þessu ákvæði í c-lið 2. tölul. 6. gr.

Mig langar jafnframt að spyrja hana í beinu framhaldi um þá fyrirvara sem verið er að reyna að koma inn í frumvarpið varðandi ríkisábyrgðina. Ég spyr enn og aftur: Ef annað tveggja gerist, að viðsemjendur okkar samþykkja þá fyrirvara sem gerðir eru eða fella þá — og þá er samningurinn úr gildi vegna þess að Alþingi er ekki tilbúið til þess veita ríkisábyrgðina eins og hún er fram sett í frumvarpinu — virka þá þessi skaðabótaákvæði um að íslenska ríkið hafi ákveðið að ábyrgjast skaðleysi lánveitandans? Verður það virkt ef samningurinn (Forseti hringir.) sem slíkur eða ríkisábyrgðin verður einfaldlega felld?