Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 18:15:50 (4271)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má færa rök fyrir því að ég ætti kannski að beina andsvari mínu til formanns Framsóknarflokksins. Hann kemur kannski og fer yfir þetta því að ég held að það sé mjög merkilegt og skynsamlegt og skipti máli að hér komi skýrt fram hvort hann var eitthvað skilyrtur, stuðningur Framsóknarflokksins við fyrrverandi ríkisstjórn, sem núna er meirihlutastjórn, við þetta einstaka mál. Ég held að vísu að í sögunni verði það álitin okkar mestu mistök eftir hrunið að fara í kosningar og stjórnarkreppu, og sú ríkisstjórn sem hér er mun fá skelfilegan dóm sögunnar af ástæðu. Hingað kom gamall krati, Göran Persson, og fór yfir þetta með Samfylkingunni, sagði að það væri tvennt sem hún mætti ekki gera, alls ekki fara í stjórnarkreppu og alls ekki fara í kosningar. Þar talaði maður af reynslu. Þessi vandræðagangur sem er núna kostar okkur tækifæri, (Forseti hringir.) krónur og aura á hverjum degi Þrátt fyrir að hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni sé skemmt yfir því er þjóðinni ekki skemmt yfir því ástandi sem er núna. (Gripið fram í.)