Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 18:44:29 (4287)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ þetta einfaldlega ekki til að ganga upp í kollinum á mér og það kann að vera einhver þverbrestur þar í gagnvart þessari röksemdafærslu því að upplýst hefur verið að fyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna á ekki að nýta til annarra verka en þeirra að leggja inn í gjaldeyrisvarasjóð landsins. Ég sé því ekki alveg samhengið á milli þessa en það hefur oft verið nýtt í stórum málum hér á undanförnum missirum að tiltaka að þetta eigi að reisa okkur við og efla traustið. Við getum nefnt sem dæmi hvað átti að gerast þegar skipt var um yfirstjórnina í Seðlabankanum, þegar við værum búin að sækja um Evrópusambandið og nú kemur þetta líka með Icesave-samningunum.

Hvað um það. Ég vildi líka gjarnan heyra frá hv. þingmanni skoðun hennar á því hvað felist í þeim skuldbindingum sem hv. þingmaður talar um að við sem þjóð verðum að sýna að við stöndum við. Hverjar eru þær skuldbindingar nákvæmlega (Forseti hringir.) sem hún telur að þarna liggi fyrir?