Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 18:52:20 (4293)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarnar vikur hefur verið unnið ötullega að því að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Gerðar hafa verið nauðsynlegar aðgerðir í ríkisfjármálum og endurskoðun stendur yfir á peningastefnu, sáttmáli hefur verið gerður á vinnumarkaði og unnið er að bættum samskiptum við aðrar þjóðir. Allt þetta þarf að vinna saman til að íslenskt efnahagslíf komist hratt upp úr þeirri lægð sem það er í nú. Verkefnið er stórt og nokkuð tyrfið en ekki óvinnandi. Fjölgun starfa og aðgerðir til að greiða fyrir því að arðvænleg fyrirtæki vilji festa hér rætur ásamt stöðugleikasáttmála á vinnumarkaði eru lykilskref og góð samskipti Íslands við aðrar þjóðir eru einn af hornsteinum endurreisnarinnar. Áföll undanfarinna mánaða hafa grafið undan því trausti sem Íslendingar nutu í alþjóðlegu samstarfi og það traust verðum við að vinna að nýju.

Óvissa hefur tafið fyrir endurreisnarferlinu. Einkum hefur óvissan um lausn Icesave-deilunnar valdið töfum og þar með getgáturnar um hvort Íslendingar ætli yfir höfuð að standa við skuldbindingar sínar. Slíkar vangaveltur hafa skaðað ímynd landsins og kynt undir efasemdum um hvort það sé áhættunnar virði að eiga viðskipti við Íslendinga. Þessu verður að linna. Við þurfum á góðri umsögn alþjóðasamfélagsins að halda. Við erum ekki skúrkar heldur heiðarleg og stolt þjóð sem stendur við orð sín, þjóð sem axlar ábyrgð á mistökum sínum og verkum sem unnin hafa verið í hennar nafni. Við þurfum að horfast í augu við að það voru Íslendingar sem með athöfnum sínum sköðuðu orðspor þjóðarinnar og við getum ekki þvegið hendur okkar af því. Við skulum takast á við erfiðleika af staðfestu og metnaði og mæta hnarreist öðrum þjóðum á jafnréttisgrundvelli. Lykilatriðið er þó að við bætum fyrir gerðir okkar, hafi okkur borið af leið. Stjórnvöld verða að ganga frá samningum um skuldbindingar Íslands vegna Icesave sem fyrst. Það er ekki umflúið og aðrir kostir munu aðeins leiða til enn meiri erfiðleika þjóðarinnar í formi kostnaðar vegna lægra gengis, lengra tímabils gjaldeyrishafta, hærra vaxtaálags á erlend lán og vantrausts umheimsins á Íslendingum. Allt hefur þetta slæm áhrif á atvinnulíf, velferð þjóðarinnar og lífskjör. Það er því verulega jákvætt að komið sé að því að leysa deiluna um Icesave-skuldbindingarnar með farsælum hætti.

Deilan við Breta og Hollendinga hefur verið hörð og staðið of lengi. Lausn er í sjónmáli með þeim samningum sem gerðir hafa verið og því frumvarpi um ríkisábyrgð sem hér er til umræðu. Eins og komið hefur fram gera samningarnir ráð fyrir að Ísland fái sjö ára tímabil án þess að leggja til fjármagn og taki síðan á þeirri stöðu sem uppi verður þegar búið verður að greiða upp í skuldina með eigum Landsbankans. Hvað þær eignir duga er ekki fullljóst á þessari stundu þótt miðað sé við í forsendum fyrir mati á greiðslugetu að þær dugi fyrir 75% skuldanna. Vaxtakjörin eru ásættanleg og sjö ára tímabilið verður að nýta af skynsemi og festu í fjármálum ríkisins og opinberra aðila.

Frú forseti. Umræðan um Icesave-samningana hefur snúist um hagfræði, lögfræði, siðfræði og pólitík. Samkvæmt breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar eru forsendur þess að Alþingi veiti ríkisábyrgð þá sem gerir samningana gilda að staða Íslands sem fullvalda ríkis sé virt og ekki verði haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindum landsins. Einnig er forsenda ábyrgðarinnar að lánasamningarnir verði túlkaðir í samræmi við hin umsömdu viðmið sem samþykkt voru milli Íslands, Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkja um að tekið verði tillit til þeirra fordæmalausu aðstæðna sem Ísland glímir við og ráðstafanir verði gerðar sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagslíf sitt. Í því felst m.a. það mikilvæga atriði að orðið verði við rökstuddri og málefnalegri beiðni Íslands um endurskoðun samninganna samkvæmt ákvæðum þeirra. Í samningunum eru ákvæði um endurskoðun ef aðstæður hafa breyst lántaka verulega í óhag sem samkvæmt upplýsingum fjárlaganefndar eigi sér engin dæmi í lánasamningum. Allt umhverfi málsins hefur verið óvissu undirorpið, ekki síst hið efnahagslega. Nauðsynlegt þótti því að leggja til að settir yrðu við ríkisábyrgðina fyrirvarar sem virkja endurskoðunarákvæði samninganna og að viðræður fari fram við viðsemjendur sem leiði til niðurstöðu jafnvel þótt í áliti Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafi komið fram það mat að Ísland hafi alla burði til að standa undir skuldbindingum sínum.

Fyrirvararnir verja okkur fyrir hugsanlegum áföllum. Þeir eru sanngjarnir þar sem ljóst er að óvissa ríkir um lykilþætti, svo sem endurheimtuhlutfall eigna Landsbankans, þróun hagvaxtar sem hefur áhrif á tekjuöflun ríkissjóðs, þróun útflutningstekna, sem hefur áhrif á aðgang að vöru og þjónustuviðskiptum, og gengi krónunnar og gengisþróun hér og í öðrum löndum. Allir þessir þættir eru síðan háðir framvindu efnahagsmála á heimsvísu en sú framvinda er einnig óvissu undirorpin.

Í því augnamiði að lágmarka þá áhættu fyrir Ísland sem samningarnir bera með sér eru efnahagslegu viðmiðin sett fram sem breytingartillaga við frumvarpið. Margsinnis hefur komið fram í umræðunni undanfarna mánuði að Íslendingar hafa staðfastlega haldið því fram að vafi léki á því hvort evrópska tilskipunin um Tryggingarsjóð innstæðueigenda eigi við þegar um kerfishrun er að ræða og þar með ríkisábyrgð á láni til sjóðanna. Úr þessu hefur ekki verið skorið með afgerandi hætti.

Einnig greinir lögmenn á um skiptingu eigna við uppgjör Landsbankans og þá helst hvort kröfur tryggingarsjóðsins gangi einar fremstar eða hvort kröfur hans séu hliðstæðar öðrum forgangskröfum. Þegar lagaleg óvissa ríkir um slík hagsmunamál sem hér um ræðir er sanngjarnt að þeirri óvissu verði eytt með þar til bærum úrlausnaraðilum. Af þeirri ástæðu eru lagalegu viðmiðin sett fram í breytingartillögunum.

Frú forseti. Siðferðislegu álitamálin eru Íslendingum þungbærust. Vegna þess hvernig eigendur bankanna höguðu sér og hvernig þeir spiluðu með heiðarlega menn af mörgum þjóðernum hefur ímynd þjóðarinnar laskast. Við höfum goldið afhroð og orðið fyrir tjóni í beinhörðum peningum en einnig orðið fyrir siðferðislegu tjóni. Sú lágkúra sem umlék fjármálaumsvif Íslendinga á síðasta áratug hefur sett mark sitt á þjóðina og hún stendur frammi fyrir erfiðu uppgjöri. Það er réttlætismál að ráðstafanir verði gerðar til að þeir sem bera ábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa verði látnir greiða fyrir það tjón.

Ljóst er að margt misjafnt hefur komið í ljós í rústum fjármálakerfisins. Svo virðist sem spilling hafi verið meiri og víðtækari en nokkurn óraði fyrir en um slíkt munu dómstólar landsins væntanlega fjalla á næstu missirum. Við blasir sú bitra staðreynd að okkur hefur borið illilega af leið í uppbyggingu fjármála- og bankakerfis og við verðum sem þjóð að endurmeta stöðu okkar og áherslur. Þjóðin þarf að taka til í sínum ranni, endurnýja gamla eiða, fyrirheit og góð gildi og styrkja kúrsinn á ný. Svona atburðir mega aldrei endurtaka sig og það er í þessu ljósi sem sú sem hér stendur vill að þjóðin nálgist úrlausnarefnin, þar á meðal lausn deilunnar um Icesave-samningana. Þær pólitísku áherslur eru lagðar að stigin verði skref sem skapa íslenska efnahagslífinu trúverðugleika að nýju. Með því að ganga frá samningum um skuldbindingar okkar gagnvart Bretum og Hollendingum sendum við ótvíræð skilaboð um að við vitum hvert við stefnum og afleiðingarnar verða þær að lánshæfi okkar batnar.

Nú er það svo að margar efnahagsstærðir, t.d. raungengi og verðbólga, eru háðar því hvernig staðið er að stjórn efnahagsmála. Sýna þarf staðfestu og aga í ríkisfjármálum. Samningar um skuldbindingar vegna Icesave einir og sér nægja ekki við endurreisn efnahagslífsins en þeir eru nauðsynlegir til að hrinda úr vegi hindrunum svo endurreisnarferlið geti gengið farsællega. Það ætti að vera markmið og heit allra hv. þingmanna.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, fyrir góð störf en hann lagði frá fyrsta degi vinnunnar í nefndinni áherslu á að ná niðurstöðu í þverpólitískri sátt. Þar náðist góður árangur þótt framsóknarmenn hafi ákveðið að standa einir og sér. Einnig vil ég þakka öðrum hv. þingmönnum sem skipuðu nefndina úr öllum stjórnmálaflokkum fyrir gott en fyrst og fremst lærdómsríkt samstarf. Starfsmönnum nefndasviðs færi ég þakkir fyrir störf þeirra og einstaklega góða viðkynningu.