Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 19:05:19 (4295)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt að hér gilda íslensk lög en hér gilda líka samþykktir EES. Mér finnst í þessu máli mikilvægt það lagalega viðmið sem fjárlaganefnd gerir tillögur um að verði samþykkt, að úr því verði skorið hvort þessi tilskipun sem um ræðir gildi, einkum og sér í lagi þegar um kerfishrun er að ræða. Lögmenn hafa haldið því fram að þessi tilskipun sé á gráu svæði og verði hún tekin upp og í ljós kemur að hún sé gölluð viljum við Íslendingar auðvitað njóta þess.

Ég hélt því ekki fram í ræðu minni að við værum í dásamlegri stöðu. Þvert á móti vildi ég segja að við værum í slæmri stöðu en við þurfum að stíga þau skref sem leiða okkur úr þessum vandræðum. Eitt stórt skref stígum við núna með því að gera samning, semja okkur út úr þessum vandræðum sem við erum í. Ég sagði aldrei að mér fyndist gott hvernig aðrar þjóðir hefðu komið fram við okkur en ég sagði að við þyrftum að öðlast að nýju tiltrú alþjóðasamfélagsins í því augnamiði að koma okkur upp úr þeirri lægð sem við erum í. Við þurfum að gera það fljótt og við þurfum að gera það vel. Ef við eyðum lagalegri óvissu varðandi þessa tilskipun er það vel.