Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 19:07:22 (4296)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni og við erum öll sammála um að við þurfum að efla tiltrú Íslands á alþjóðavettvangi. Ef ég skil hv. þingmann rétt vill hún að það verði kveðið á um það við einhvers konar dómstól hvort þessi tilskipun gildir. Nú er ljóst að Evrópusambandið — eftir að við blæðum — ætlar að endurskoða hana og það er augljóst að hún er meingölluð. Hugmyndin er einfaldlega sú — af því að þetta er einn markaður, Evrópska efnahagssvæðið — að það er alveg sama hvar þú setur fjármuni þína í banka, þú átt að vera nokkurn veginn öruggur, ef eitthvað kemur upp á, um að þú eigir ákveðna innstæðu inni. Það er grunnhugmyndin. Í staðinn fyrir að það væri einn sjóður yfir alla álfuna er þetta kerfi fyrir hvert land fyrir sig.

Síðan er vægast sagt sérkennilegt hvenær þetta á við Ísland og hvenær við Holland, Bretland og Þýskaland þegar menn eru með útibú frá Íslandi í þessum löndum. Það er í rauninni engin heil hugsun í því. Við áttum ekkert val. Við þurftum að taka þessa tilskipun upp. Þegar Evrópusambandið hefur ákveðið tilskipun verða aðildarþjóðirnar að taka hana upp og líka aðildarþjóðir Evrópska efnahagssvæðisins.

Það sem veldur mér áhyggjum með Samfylkinguna er að þjónkunin við Evrópusambandið er svo gríðarleg og Evrópusambandsglýjan svo ótrúleg að öllu er fórnandi. Ég treysti ekki Samfylkingunni til að gæta hagsmuna Íslendinga. Það er enginn vafi í mínum huga um að þetta mál var keyrt svona hratt í gegn til þess að hægt væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu og keyra það í gegn.

Það eru málefnaleg rök fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fullt af góðu fólki vill að Ísland gangi inn en ég treysti ekki fólki sem heldur svona utan um hagsmuni Íslendinga. Mér fannst því miður ræða hv. þingmanns bera keim af þessu.