Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 20:53:30 (4318)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að það hefur farið fram málefnaleg og efnisleg umræða í hv. fjárlaganefnd því þar er margt hæft fólk og margir hæfir gestir hafa komið inn til nefndarinnar.

Í framhaldi af því sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson segir um að það ríki lagaleg óvissa um þetta mál, dómur Evrópudómstólsins sé því til grundvallar að þetta sé með þessum hætti og ríkið megi ekki ábyrgjast þetta vegna samkeppnissjónarmiða, af hverju var þá ekki farið af stað með málið til að fá úr því skorið í byrjun áður en þetta mál kom fyrir þingið, að láta reyna á hver væri réttur innstæðutryggingarsjóðs gagnvart ríkinu? Erum við ekki komin of langt í málinu með því að ræða ríkisábyrgð í 2. umr. um þennan samning, þar sem þetta er grundvallaratriði í öllu málinu?

Hér fara Bretar og Hollendingar fram á það við okkur á grundvelli þeirra nauðasamninga sem voru gerðir hér, undirskrifaðir af framkvæmdarvaldinu, að það verði ríkisábyrgð allt að 1.000 milljörðum. Þetta er algerlega óútfylltur tékki því það er alltaf að brotna meira og meira úr þessu eignasafni Landsbankans. Ég spyr hv. þingmann: Er ekki skynsamleg byrjun að láta alla vega athuga þetta og skera úr um það áður en málið er komið í þennan hnút sem það er, þó að þar séu einhverjir fyrirvarar? Ég hef farið yfir það í ræðum fyrr í dag og andsvörum að ákvæði 13.1.1. í breska samningnum telur að það megi ekki breyta samningum. Við erum að missa þennan samning úr okkar dómslögsögu með samþykkt þessarar ríkisábyrgðar. Um leið og búið er að samþykkja ríkisábyrgð gilda um samninginn bresk lög og breskir dómstólar dæma í þeim málum sem upp kunna að rísa.