Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 21:42:51 (4324)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er virkilega á annarri skoðun en hv. þingmaður, ég er í andsvari við hann. Þannig er að ríkisábyrgðin sem við erum að veita er takmörkuð, hún er takmörkum háð. Ef samningsaðilar, ég er kannski ekki að tala um íslensku samningsaðilana, en þeir erlendu, ef þeir sætta sig við þá takmörkun þá eru þeir búnir að sætta sig við að ríkisábyrgðin sé takmörkuð, sætta sig við þá breytingu á samningnum.

Auðvitað er sérhver breyting sem við gerum á ríkisábyrgðinni, ef við takmörkum hana í stað þess að veita fulla ríkisábyrgð, þá er það í raun ekki sami samningurinn og þá geta samningsaðilar sagt: Þetta er ekki fullkomin ríkisábyrgð, þessi samningur er ekki í gildi. (GBS: Það má ekki breyta honum.) Má ekki breyta honum? Þið getið þá sagt: Hann er ekkert í gildi, eða þá: Hann er í gildi án ríkisábyrgðar, ef þið viljið hafa það þannig. Þeir standa frammi fyrir því annaðhvort að samþykkja þessar breytingartillögur, þessa takmörkuðu ríkisábyrgð sem við erum að veita eða segja að samningurinn sé ekki í gildi, það sé búið að breyta honum og það megi ekki. Það þýðir að þeir verða bara að sækja sinn rétt aftur ef þeir ekki sætta sig við þessa takmörkun. Ef þeir sætta sig hins vegar við takmörkunina þá gera þeir það og þá gildir þessi takmarkaða ríkisábyrgð sem við erum að ákveða og ekkert annað.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann. Hér myndaðist mjög viðkvæmur meiri hluti á Alþingi, framsóknarmanna, hluta af hugrökkum vinstri grænum, sjálfstæðismanna og Borgarahreyfingarinnar. Þessi meiri hluti náði fram að mínu mati þessum skynsamlegu breytingum á ríkisábyrgðinni, takmörkunum. Nú hefur það gerst að framsóknarmenn hafa farið út úr þessum viðkvæma meiri hluta sem var hætt við að brotna upp. Getur verið að Framsókn gæti komið aftur inn til að mynda samstöðu um það að ná fram einhverjum viðbótarbreytingum á þessum breytingartillögum?