Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 22:04:56 (4334)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:04]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samfylkingin á ekki að skorast undan ábyrgð, frekar en nokkur annar stjórnmálaflokkur, á því sem gerst hefur í okkar samfélagi. (Gripið fram í: Nú?) Nei, það á hún ekki að gera og það gerir hún ekki. (Gripið fram í: Ha?) Samfylkingin er trúlega eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur axlað ábyrgð (Gripið fram í.) með afsögn ráðherra og með afsögn (Gripið fram í.) bankaráðsmanns í Seðlabankanum. (Gripið fram í: Hver sagði af sér í Sjálfstæðisflokknum?) (Gripið fram í: Hvað sögðu margir sjálfstæðismenn af sér?) [Frammíköll í þingsal.]

Frú forseti. Það væri indælt að fá hljóð. (Forseti hringir.) Nú verð ég að biðja mína eigin flokksmenn um að stilla sig svo að ég fái hljóð.

(Forseti (ÁRJ): Ró í salnum.)

Frú forseti. Við göngumst við okkar ábyrgð, þeirri takmörkuðu ábyrgð sem við berum. Einu erum við þó saklaus af og það er að við höfum aldrei talað fyrir skefjalausri frjálshyggju og meinsemdin felst ekki í að axla ábyrgð og gangast við henni. Meinsemdin í okkar (Forseti hringir.) samfélagi er sú að menn hafa ekki gengist við ábyrgð. Sjálfstæðisflokkurinn gengst ekki við sinni ábyrgð — (Gripið fram í.) og það er vandamálið að Sjálfstæðisflokkurinn … (Gripið fram í: Ekki í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.)

(Forseti (ÁRJ): Einn fund í salnum.)

Sjálfstæðisflokkurinn talar hér eins og heilög kýr (Forseti hringir.) og þvælist fyrir þeim björgunaraðgerðum sem verið er að vinna [Frammíköll í þingsal.] í þeirri tiltekt (Forseti hringir.) sem við þurfum að vinna. Mér finnst það alvarlegur ábyrgðarhluti ef ég á að segja alveg eins og er.

(Forseti (ÁRJ): Tíminn er liðinn. Forseti biður þingmenn um að hafa ró í salnum og einn fund í gangi.)