Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 22:11:57 (4339)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:11]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svolítið erfitt að halda uppi vitrænum samræðum hérna, það er kominn einhver kvöldúlfur í þingmenn og lítið hljóð í salnum þannig að menn mismæla sig mjög. Ég er ekki hæstv. ráðherra, ég læt mér alveg nægja að vera hv. þingmaður, að svo stöddu a.m.k. (Gripið fram í: Þú bara talar eins og ráðherra.) Nákvæmlega.

Ljósberi vonar eru fögur orð og væru fallegt heiti á stjórnmálastefnu. Ég er þó fyrst og fremst að vísa til þess að við getum ekki skirrst við að horfast í augu við hvert hugmyndafræði undanfarinna 18 ára hefur leitt okkur. Mér finnst hálfátakanlegt að fylgjast með því að helstu boðberar þeirrar hugmyndafræði enn þann dag í dag, þrátt fyrir þau spor sem við stöndum í núna, neita að horfast í augu við það skipbrot sem sú hugmyndafræði í raun og veru leiddi yfir okkur. (Gripið fram í.) Það er í raun og veru meinsemdin í okkar samfélagi (Forseti hringir.) vegna þess að eitt er að gera mistök en verra er að gangast ekki við þeim og reyna ekki að leiðrétta þau. (Gripið fram í.)