Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 22:14:33 (4341)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:14]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við getum endalaust deilt um forsendur þessa samnings, hvað geti talist eðlilegt og hvað óeðlilegt. Ég held að það sé mjög villandi að ræða upphæðir í þessu sambandi, (Gripið fram í: Nú?) vegna þess að það sem við getum — (Gripið fram í.) Já, það er mjög villandi að tala um krónutölur (Gripið fram í.) og reyna að reikna fram í tímann hver muni vera kostnaður og vaxtabyrði o.s.frv. Við vitum að samningsdrögin sem lágu hér fyrir sl. haust gerðu ráð fyrir 6,7% vöxtum. Þessi samningur gerir ráð fyrir 5,5% vöxtum og það eru eðlileg kjör. Það hljóta að teljast eðlileg kjör í samningum á borð við þennan, það teljast eðlileg kjör í viðskiptasamningum og við höfum fengið fregnir af því núna á síðustu vikum að í raun og veru hefðum við ekki getað fengið neinn annan lánasamning (Forseti hringir.) á sambærilegum eða betri kjörum en þennan sem hér er um rætt. Um þetta má þó auðvitað deila og langt fram á nótt.