Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 22:18:41 (4345)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:18]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Þetta er löng umræða um klink, en við verðum að taka því. Tíu vikur hafa nú farið í það að reyna að lagfæra þessa druslusamninga sem ríkisstjórnin kynnti í sumar. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) — Samninga, já, sem ríkisstjórnin stóð að. Það hefur aðeins mjakast en það er ekkert í hendi. Það er spádómur í skógi, ekki einu sinni fugl, og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vakti athygli á því fyrr í kvöld að hvergi væri stafur á bók um skyldur Íslendinga gagnvart ríkisábyrgð á einkarekstri. Það er rétt hjá honum, hvergi stafur á bók.

Hv. þingmaður vakti einnig athygli á því að ef þetta mál verður samþykkt á Alþingi er það áfram í höndum ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst og hún er tvískipt. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar menn eru í brimgarði að hafa skipstjóra á bæði borð í brúnni. Það gengur ekki, þess vegna er þetta veik staða.

Það er skelfilegt að við Íslendingar skulum búa við þrennt sem við þolum ekki og getum ekki búið við í þessari stöðu: Við getum ekki treyst Samfylkingunni, við getum ekki treyst Evrópusambandinu og við getum ekki treyst Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. (VigH: Rétt.) Þetta eru grundvallaratriðin og við eigum ekki að vera með neinn barnaskap eða í dúkkulísuleik og halda einhverju öðru fram. Það er skelfilegt að heyra þegar menn tala hérna eins og þeir séu að búa til einhverja pakka fyrir leikskólaafmæli og kynna þá með einhverjum gylliboðum sem hafa enga stoð.

Stórt vandamál í þessu efni er að Samfylkingin er troðfull (Gripið fram í.) af glimmeri Evrópusambandsins og sér ekkert annað. Það er slæmt þegar reyndir fréttahaukar falla í þessa glimmersúpu. Maður hefði ætlast til annars. Allar bílaverksmiðjur heimsins, sama hvaða druslur þær framleiða, virðulegi forseti, hafa einboðna reglu: Ef fram kemur verksmiðjugalli í vél eru vélarnar innkallaðar, alveg sama hvar er í heiminum.

Það kemur fram alvarlegur galli, stórhættulegur galli, í vélvirki og reglugerðum Evrópusambandsins þegar efnahagshrun dynur yfir heimsbyggðina. Hvað gerir Evrópusambandið þá? Kallar það þetta reglugerðarverk inn til viðgerðar? Nei, það velur minnstu þjóðina í samfélagi sjálfstæðra þjóða Evrópu og traðkar á henni með svo ófyrirleitnum hætti að það er með ólíkindum. Það undirstrikast kannski best með því að nágrannar okkar, Norðurlandaþjóðirnar, koma fram eins og dulur í kjölfar tilkynningarskyldu Evrópusambandsins, gömlu herraþjóðanna sem þar ríkja. Þetta er það sem við búum við. Við verðum að bregðast við því og vinna okkur úr stöðu á okkar sjálfstæða hátt á okkar eigin forsendum. Hlutverk alþingismanna á fyrst og fremst að vera það að verja Ísland og íslenskt samfélag. (Gripið fram í: Rétt.) Menn mega ekki falla í þá gildru að taka að sér óviss gylliboð, undirboð og tilboð frá Evrópusambandinu sem segir ekkert um stöðu okkar nema að það er áhætta, áhætta og aftur áhætta.

Þegar maður hefur starfað lengi í pólitík lærir maður líka margt sem kemur kynlega út og það er harður skóli. Maður verður þá að læra af því. Alveg sama hvort menn gera mistök, hvort þjóð gerir mistök, hvort einstaklingar gera mistök, það er hluti af lífinu því að lífið er aldrei 100%. Menn verða að læra af þessum mistökum. En við getum ekki tekið áhættu í sambandi við sjálfstæði Íslands, stöðu íslensks samfélags. Þar verðum við að standa á verði miklu betur en í öllu öðru. Það er vandamál í þessu að Samfylkingin hangir í pilsfaldi Evrópusambandsins og það hefur orðið til þess að það er rugl á öllu saman, á Icesave-samningum og aðild að Evrópusambandinu. Það er ekki hægt að slíta þarna á milli eins og þetta hefur vaxið. Vinstri grænir fylgja þessu eftir og hlýða eins og feimið barn í söng. (Gripið fram í.) Þeir láta nota sig, eru settir í skítverkin en eðalfólkið í Samfylkingunni hefur frítt spil, það er alltaf að koma af fjöllum og svo dettur það úr sambandi þegar eitthvað er sagt við það.

Vitað er um samtöl seðlabankastjóra Bretlands við seðlabankastjóra Íslands þar sem seðlabankastjóri Bretlands sagði: Auðvitað er ekki hægt að gera ráð fyrir því að Íslendingar beri ábyrgð á þessum áhættulánum sem Icesave-samningarnir voru vegna þess að það var augljóst strax í upphafi að menn ætluðu að græða á óeðlilega háum vöxtum. Svo kemur Evrópuflokkurinn og segir: Ja, þeir vilja skilja það svona. Samfylkingin vill skilja það svona af því að Evrópusambandið vill skilja það svona. Það vita allir að Evrópusambandið er nú byrjað að vinna að því að breyta þeim reglum sem eru að berja Ísland niður. (VigH: Rétt.) Það er eina regluverkið sem þeir eru að breyta, en áður ætla þeir að traðka á okkur, þessar hetjur í Hollandi, í London, í Stokkhólmi, og segja okkur að fara til þess sem í neðra býr. Þetta er nú virðing þessara þjóða fyrir sjálfstæðri lítilli þjóð á norðurhveli jarðar. Ég ætti að nota miklu hvassari orð í þessum efnum en að tala um hið neðra, það er talað um að fara neðar en Húsavíkur-Jón. Þetta eru svívirðileg vinnubrögð, þetta er klár nauðgun á einu samfélagi og þjóðfélagi sem við eigum ekki að kyngja. Þá er nú betra að standa eftir einn á jöklinum en að vera í samfloti við þetta lið.

Við höfum alla möguleika til að bjarga okkur án þess að vera undirlagðar og flaðrarar við þjóðir sem gefa skít í okkur, virðulegi forseti.

Hryðjuverkalögin eru dýrasta og mesta árás á Ísland í sögu landsins frá upphafi. Sáttmálinn frá 1262 var miklu skárri en valdbeiting hryðjuverkalaganna. Eigum við að gleyma því? Auðvitað eigum við ekki að gleyma því, aldrei. Við eigum að læra af því og byggja metnað Íslands í gagnsókn en ekki undirlægjuhætti. Hvað sýndi NATO í þessu dæmi? Heigulshátt, smámennishugsun, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) ómarktækt samfélag sem okkur varðar í rauninni ekkert um lengur, (Gripið fram í: Jóhanna talaði þó við hann í dag.) varðar ekkert um það lengur. (Gripið fram í: Viltu ekki bara fara úr NATO?) Hvers vegna ættum við að leita til Norðmanna í þessari stöðu? Þótt Norðmenn séu um margt ágætir, hvers vegna ættum við að leita til þeirra eða forsvarsmanna þeirra, hvort sem þeir vinna í Noregi eða á alþjóðavettvangi? Norðmenn eru svo nískir að þeir trúa ekki einu sinni á líf fyrir dauðann. Það hentar ekki lítilli þjóð.

Allir hafa brugðust í þessu Evrópusamfélagi nema Færeyingar og Pólverjar. Þeir reyndust drengskaparmenn. (Gripið fram í.) Og svo erum við að daðra við þetta glimmerlið frá Brussel. Guð hjálpi okkur.

Það er ömurlegt að Evrópusambandslöndunum skuli ekki vera treystandi og það er ömurlegt að Vinstri grænir sem vilja gjarnan vera byltingarmenn verða svo bara gólftuskur Samfylkingarinnar. (Gripið fram í: Rétt. …) Þar er engin heildarstefna, Samfylkingin samanstendur af bögglauppboði úr ýmsum pólitískum sjoppum og þar er hver sjálfs síns herra í þeim herbúðum. (Gripið fram í: Ó, já.) Einstaka hvítir menn standa upp úr, ávallt viðbúnir, en þetta er duglaust lið til árangurs. Þetta er fólk sem hlýðir pilsföldunum í Brussel og við eigum ekkert að gera við þetta.

Vandamálið er að Samfylkingin situr öfug í hnakknum. Menn komast ekkert áfram á reið með þeim hætti. (Gripið fram í: Þetta er …) Breytingarnar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu að tilhlutan manna úr flestum flokkum á Alþingi eru til góðs og það er hægt að fallast á margar þeirra. Í rauninni er í heild hægt að fallast á þær en það er ekkert tryggt um framgang þeirra. Margar breytingarnar snerta ekki ýmis ákvæði samningsins sem eru líka vandamál fyrir okkur. Þá er auðvelt fyrir stóru jaxlana í Evrópusambandinu að keyra yfir okkur og segja: Étið þið bara það sem úti frýs. Við höfum völdin. Þeir hafa sýnt að þeir eru tilbúnir til að gera hvað sem er við íslenska þjóð til að ná tökum á landi og þjóð. Það er skelfilegt að á hv. Alþingi skuli vera þingmenn sem láta fallerast í þessum efnum. Þá er betra að viðurkenna, eins og sumir hafa gert í kvöld, að þeir hafi verið teknir úr sambandi. Við eigum ekki að líða nauðgun og ekki valdbeitingu á þjóð okkar.

Það er vandamál að ríkisstjórnin vill, eins og Samfylkingin, þegja og þegja. Samfylkingin segist vera „stikkfrí“ og bíður með blaktandi pils eftir Evrópuörkinni. Engir gripir munu fara í þá örk, hvorki sauðfé né aðrir gripir á Íslandi, og við sem verðum eftir getum væntanlega byggt hér upp aftur. Við ætlum ekki í rauðvínspartýið í Brussel.

Stærsta áhættan í þessum samningi sem við ræðum um er auðvitað að hlutfallið er allt of hátt af útflutningstekjum og skatttekjum sem við kunnum að þurfa að borga. Öll áhættan er okkar megin. Jafnvel þó að inn hafi komið öflugir fyrirvarar er áhættan okkar megin. Evrópusambandið hefur sýnt sig vera mesta kúgunar- og heimsveldisapparat í sögu heimsins. Rússneska Sovét var bara vasaútgáfa miðað við þá hugsun sem liggur að baki Evrópusambandinu. Svo ætla menn að leggja á flótta, lenda á heiðum Jótlands og halda þar mannskapnum í einangrun. Nei, Íslendingar munu snúa vörn í sókn en ekki fara hraglandi undan vindi eða öldu. Íslendingar munu snúa vörn í sókn, alveg sama þó að Samfylkingin hafi verið með frítt spil frá fæðingu af því að hún er sakleysið uppmálað (Gripið fram í.) og jafnvel reyndir sjómenn úr hópi Vinstri grænna sem eiga setu á Alþingi lúffa eins og kerlingar, (Gripið fram í: Stukku frá borði.) stökkva frá borði eins og ákveðin dýr. Þetta er bara skelfilegt. Ísland er leiksoppur Evrópusambandsins, það má draga það saman í því, virðulegu þingmenn, að Evrópusambandið skipar fyrir. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti, virðulegi forseti.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmann á að ávarpa forseta …)

Hv. forseti, virðulegur forseti, hæstv. forseti..

(Forseti (ÁRJ): … en ekki þingmenn beint út í sal.)

Þeir eru nú fólk líka.

(Forseti (ÁRJ): Og biður hann einnig að gæta orða sinna í ræðunni.)

Virðulegi forseti. Allt sem ég hef sagt er í lágmarki.

Eitt af því sem er gegnumsneitt í þessu máli öllu er óvissan sem öll er Íslands megin. Málaferli geta tafið, misjafnar túlkanir, Evrópusambandið sjálft, flækjan sem er eins og kóngulóarnet, óvissan um gengi evru, punds, íslensku krónunnar, og það er hægt að telja upp endalaust. Ekkert er í gadda slegið. Þetta er endalaus óvissa þar sem hundruð milljónaþjóðir hossast á 300.000 manna þjóð, hossast á henni eins og kengúrur. Það verður bara að tala mannamál í þessum efnum, ekki vera með einhverjar silfurskeiðar sem eru yfirleitt allt of litlar til að borða úr. Evrópuþjóðirnar eru að hossast á Íslendingum og merja þá.

(Forseti (ÁRJ): Forseti verður að biðja hv. þingmann um að gæta orða sinna í tali.)

Það er vægt til orða tekið, virðulegi forseti. Það er ekkert klárt í þessum fyrirvörum og við verðum að taka okkur tak, eins og ég sagði áðan, við eigum að verja Ísland með góðu eða illu að hætti Sturlunga og Haukdæla, til síðasta manns ef svo ber undir. Ábyrgð Breta og Hollendinga er einföld varðandi skylduna fyrir stofnun í gistiríki. Hún er einföld og ekkert torskilin, en við leggjum það ekki á borðið að öllu jöfnu.

Það er líka klárt að gistiríkið er það sem getur lokað stofnunum sem ekki standa sig með tilliti til neytendaverndar í þeim löndum þar sem íslensk útibú eru eða hafa verið. Það er klárt. Af hverju eru menn að mylja moðið í þessu, af hverju ganga þeir ekki til verka og kalla þetta réttu nafni?

Virðulegi forseti. Icesave varð strax hluti af ESB-valdhöfunum með stjórn Breta og Hollendinga í samkrulli við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það vita allir að þeir brutu leikreglurnar. Það vita allir að reglugerðin var biluð og þeir hafa brotið leikreglurnar gagnvart Íslendingum. Svo eru menn að bugta sig og beygja. Það er kannski ekki skrýtið þó að svona komi upp. Við sem höfum unnið áratugi með hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur vitum vel að Jóhanna hefur alltaf þráð að fólk yrði fátækt. Hvers vegna hefur hún þráð það? Vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur þá trú að fátæka fólkið kjósi hana.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmann á að nefna hæstv. ráðherra fullu nafni.)

Það þarf ekki að minna hv. þingmann á neitt. Ég er búinn að nefna hana þrisvar með nafni, hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta er staðreyndin. (Gripið fram í: Þetta er kannski …) Það er ekki nóg að fólki þyki vænt um fátækt fólk í plöggum og skýrslum, ég tala ekki um þegar það heilsar því ekki einu sinni í ráðuneytum ef það hefur titil undir ráðuneytisstjóra. Það er ekkert leyndarmál, það er bara staðreynd sem allir vita sem unnið hafa í þessu umhverfi í áratugi. (SER: Þetta er smekklegt.) Við verðum að taka hlutina eins og þeir eru og ekkert kjaftæði, (Forseti hringir.) hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson. (Forseti hringir.) Við eigum að taka á þessu og það er grundvallaratriði, virðulegi forseti, að við fáum skriflegt svar (Forseti hringir.) frá Bretum og Hollendingum um hvernig þeir túlka þá fyrirvara sem við höfum sett í það frumvarp (Forseti hringir.) sem hér er til umræðu. Það er grundvallaratriði. Fyrr er ekki hægt að samþykkja málið. Einfalt.