Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 22:39:37 (4347)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns var um margt ágæt og margt kom sem þar fram eru hlutir sem ég hefði viljað orða og gera að mínum. Ég harma reyndar að þingmaðurinn hafi ákveðið að halda aftur af sér, hafa orðræðuna í lágmarki, (ÁJ: Kurteisin er að drepa hann.) kurteisin er greinilega að drepa hann, eins og hann orðaði það sjálfur úr þingsal. Þetta er einmitt mál sem menn eiga að tala tæpitungulaust í.

Mig langar til að spyrja þingmanninn um tvennt: Annars vegar, hvað kosta eitt stykki jarðgöng til Vestmannaeyja? Hér kasta menn milljörðum út um gluggann eins og þeir séu klink, 3 milljarðar. Af hverju var barist fyrir því að hækka greiðslubyrðina um 3 milljarða? Jú, bara að gamni, Bretum gæti hugnast það betur. Það er eina ástæðan, það er engin önnur ástæða til. Svo tala menn um 25 milljarða vaxtakostnað sem við þurfum að borga umfram ábyrgð, tölur sem skipta engu máli. Mig langar til að fá skoðun þingmannsins á þessu, hvort hann gæti ekki notað þennan pening til að bæta samgöngur í heimabyggð sína alveg eins og við þurfum á því að halda í Norðausturkjördæmi þar sem samgöngur eru víða erfiðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann um annað, ég veit að tími minn er að fjara út: (Forseti hringir.) Ætlar þingmaðurinn að fallast á þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur gert eða ætlar hann að aðstoða (Forseti hringir.) okkur framsóknarmenn í að styrkja samningana, gera þá skýrari og líklegri (Forseti hringir.) til að þeir haldi á erlendri grundu?