Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 22:46:18 (4351)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:46]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður hefur sagt um hótanir Samfylkingarinnar. Strax og Samfylkingin hóf samstarf með Sjálfstæðisflokknum byrjaði hún að hóta, hóta breytingum utan frá, með tilkynningum, blaðri um alls konar mál sem voru ekki á dagskrá, sem trufluðu umræðuna, trufluðu fjölmiðla, trufluðu það að skila árangri. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmenn að glotta yfir þessu, þetta er bláköld staðreynd, (Gripið fram í.) hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Það er rétt að fara að hugsa í alvöru í þessum efnum.

Sama gerði Samfylkingin, enn fyrr í samstarfi við Vinstri græna. Það var ekki þornað kaffið í brúðkaupsbollanum þegar það var byrjað að hóta Vinstri grænum utan frá, í gegnum fjölmiðla, í gegnum yfirlýsingar hér og þar út og suður, trufla, færa það yfir á þá. Þannig hefur Samfylkingin — sem vissulega hefur margt gott fólk innan borðs — stjórnað. Þeir hafa setið í stofunni en samstarfsflokkar eiga síðan að vinna húsverkin, þurrka af, vaska upp, bóna, laga garðinn, en fína fólkið situr í stofunni og bíður eftir kaffinu. Þetta er það sem blasir við.

Varðandi ríkisábyrgð, ef þessu frumvarpi er hafnað, það þýðir bara eitt. Það þýðir að menn verða að hafa snör handtök við að setjast að samningaborðinu aftur með skelegga nýja samninganefnd, nefnd sem er harðskeyttari, skipuð harðskeyttari og þjálfaðri mönnum. (Gripið fram í: Sjálfstæðismönnum?) Nei, nei.

Við höfðum ekki reiknað með því að Evrópusambandið (Forseti hringir.) mundi keyra okkur niður eins og það hefur gert. Við treystum því að þar gætum við komið fram sem jafningjar, það hefur ekki verið þannig. Þess vegna þurfum við að nota öll ráð með harðskeyttustu samningamenn í heiminum, hvort sem þeir koma frá (Forseti hringir.) Bretlandi, Hong Kong eða París.