Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 22:48:47 (4353)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var eins og við var að búast að ég fékk skýr og góð svör frá hv. þm. Árna Johnsen. Ég undrast oft eins og hann hversu viljugir Vinstri grænir eru að fara út með ruslið fyrir Samfylkinguna eins og ég sagði í ræðu um daginn. (Gripið fram í.)

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann að því hvort hann deili skoðun minni. Verði sú niðurstaða að Alþingi hafni ríkisábyrgð á Icesave-samningnum, komi sú staða upp, hafa Bretar og Hollendingar þá einu leið út úr þeim aðstæðum að tæma innstæðutryggingarsjóðinn, hirða það sem eftir er í Landsbankanum í London og sækja okkur svo til saka og dómhafinn er Héraðsdómur Reykjavíkur.

Þær hótanir sem hafa verið hér og blekkingar varðandi þetta mál hafa alveg gengið fram af mér. Eftir því sem ég fæ fleiri gögn í hendurnar sé ég hvaða blekkingaleik og sjónarspil er búið að setja upp fyrir alþingismenn.