Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 23:23:15 (4365)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[23:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekkert hvar hv. þingmaður var í þessu andsvari. (Gripið fram í.) Það er mjög erfitt að kommentera eitthvað sérstaklega á það, en ég vil að hv. þingmaður, út af ræðu hans áðan, fari nú aðeins að kynna sér þetta með frjálshyggjuna, hvað er búið að vera hér í gangi og við hvað er að eiga. Hv. þingmaður, eins og öll Samfylkingin, berst hatrammlega fyrir því að fara inn í Evrópusambandið. Það er það sem Samfylkingin gengur út á.

Alveg sama hvernig menn snúa þessu máli er þetta regluverk Evrópusambandsins, og það er Evrópusambandið sem er að snúa okkur niður núna, alveg eins og stóru þjóðirnar í Evrópusambandinu hafa látið Íra fara eftir ströngustu reglum Evrópusambandsins meðan stóru ríkin, Þýskaland og Frakkland, hafa fengið að sleppa. Þetta eru staðreyndir og það þýðir ekkert að hjala um frjálshyggju til eða frá. Þetta eru bara staðreyndirnar, við eigum hér við regluverk Evrópusambandsins og skiptir engu máli með einkavæðingu, dreifða eða ekki. (Forseti hringir.) Einkavæðingin var margsinnis, hún fól líka í sér dreifða eignaraðild, það skiptir engu máli. Ástæðan fyrir því að við erum að taka á þessu máli núna (Forseti hringir.) er regluverk Evrópusambandsins.