Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 23:25:34 (4368)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[23:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, flokkar veita ekki andsvör. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson talaði um að Icesave snerist um mannasiði. Eftir ræðu hv. þingmanns er ég ekki alveg viss um að skilningur okkar á orðinu mannasiðir fari saman. (Gripið fram í.) Hins vegar spyr ég hv. þingmann sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd: Hvert var hlutverk hv. þingmanns í fjárlaganefnd, hvað lagði hann til, hver er skoðun hv. þingmanns á orðum Jóns Sigurðssonar, formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins, þegar hann talaði í maí í fyrra um að hagkerfið eða bankakerfið væri heilbrigt? Hver er skoðun hv. þingmanns á orðum fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar rétt fyrir hrun í fyrra þegar hún sagði: Það er engin kreppa á Íslandi? Og í síðasta lagi langar mig að fara vítt um breiðan völl, eins og sumir segja, eða breitt um víðan völl: Hvað átti þingmaðurinn við þegar hann hætti hjá (Forseti hringir.) samsteypunni og fór í framboð og sagðist vera laus undan oki auðmanna? (Gripið fram í.)