Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 23:30:02 (4373)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[23:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig á því undir ræðu þingmannsins að ég væri staddur í leikhúsi fáránleikans. Leikritið sem var flutt var ekkert sérstaklega skemmtilegt, mér leiddist allan tímann en eins og með sum vond leikrit ákveður maður að sitja út allan tímann vegna þess að stundum gerist það að leikrit verða það vond að þau gætu hugsanlega batnað. Í ræðu þingmannsins var aldrei vikið að efnisatriðum málsins, aldrei — við höfum setið í fjárlaganefnd í 10 vikur — aldrei vikið að efnisatriðum málsins. Og ég gagnrýni það að þingmaðurinn leyfi sér að segja um þjóðina að hún eigi að skammast sín. Þjóðin á ekki að skammast sín, hún hefur ekkert til saka unnið, það voru menn sem (Forseti hringir.) frömdu glæpi alveg eins og við sökum ekki aðrar þjóðir, almenning, vegna þeirra glæpamanna sem koma hingað til lands og stela.