Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 10:23:29 (4380)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að þingmaðurinn er ánægður með samstöðuna, en það er einfaldlega þannig að hefði málið komið fyrir þingið á þessum tíma, um miðjan júlí, eins og hv. þingmaður, hv. varaformaður nefndarinnar, ætlaði að ná fram, hefði einfaldlega ekki verið nein samstaða í þinginu. Ég efast um að málið hefði fengið jákvæða niðurstöðu í þinginu. Ég hugsa að það hefði verið fellt þannig að það er mikil ábyrgð sem hvílir á Vinstri grænum í þessu máli. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á ríkisstjórnarflokkunum í þessu máli og það er ekki vegna samstöðu þeirra, þessara tveggja flokka, sem þetta mál er komið til umræðu í dag heldur vegna samstöðu annarra þingmanna, hugrakkra vinstri manna úr röðum vinstri grænna, sjálfstæðismanna, framsóknarmanna til ákveðins tíma, þannig að það er algerlega ljóst í mínum huga að á þessum tíma, þann 17. júlí þegar hv. þingmaður lýsti því yfir að rétt væri að afgreiða þetta úr nefndinni, var engin samstaða um þetta mál, ekki einu sinni í ríkisstjórnarflokkunum. Það er einfaldlega gott að halda því til haga, (Forseti hringir.) og halda því til haga hver ber ábyrgð á því að hér er samstaða um þetta mál.