Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 11:13:40 (4402)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Undir þennan samning rita fulltrúar bresku ríkisstjórnarinnar, hollensku ríkisstjórnarinnar, annan samninginn, og fulltrúar stjórnar innlánstryggingarsjóðs og fulltrúi fjármálaráðherra. Þeir geta ekkert skuldbundið Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í: Rétt, hárrétt.) Þessir einstaklingar í krafti sinna embætta geta ekki skuldbundið ríkissjóð Íslands. (Gripið fram í.) Til þess höfum við nefnilega stjórnarskrá sem Bretar hafa reyndar ekki. Það er nefnilega það athyglisverða í þessu að það er Alþingi Íslendinga sem hér og nú er að veita ríkisábyrgð og hún getur verið takmörkuð eins og okkur dettur í hug. (Gripið fram í.) Nei, en þá kemur nefnilega upp sú spurning hvort samningsaðilar telja þá ríkisábyrgð næga. Það er nefnilega þeirra val, ekki íslensku heldur þeirra erlendu, hvort þeir fallist á að þessi takmarkaða ríkisábyrgð sé nægileg til þess að þeir sætti sig við hann. Þetta er breyting á samningnum. Það sem menn eru að tala hér út og suður um hvort samningurinn sé óbreyttur eins og hæstv. ríkisstjórn heldur fram eða ekki gengur út á það hvort Bretar og Hollendingar muni samþykkja þessar breytingar.

Ég hugsa að ef Íslendingar stæðu sig vel í því að markaðssetja þessa hugmynd úti um alla Evrópu þannig að Bretar og Hollendingar misstu sitt bakland í Evrópusambandinu, þá stæðum við miklu betur að vígi gagnvart því að þeir mundu samþykkja þessar breytingar á ríkisábyrgðinni. Að sjálfsögðu er þetta ekki sama ríkisábyrgðin og samningurinn gerir kröfu um, það er alveg á hreinu. Sérhver breyting á þeirri ríkisábyrgð eða takmörkun er breyting á samningnum og menn geta rift honum þess vegna ef þeim sýnist svo og ef (Forseti hringir.) þeir kæra sig um. (VigH: … í samningnum.)