Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 11:40:11 (4409)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:40]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, allt er vafa undirorpið og þegar maður leggst í lögfræði og annað sest maður í heildarmat og reynir að komast að niðurstöðu út frá öllum þeim gögnum sem liggja fyrir. Ég hef ekki sömu áhyggjur og framsóknarmenn af þessu samningsákvæði sem þeir hafa vitnað til en engu að síður er gagnrýnin og ábendingin réttmæt og það verður auðvitað að skoða þetta eins og annað. Ég skora sérstaklega á framsóknarmenn, sem ég tel að hafi farið með sáttavilja inn í þetta mál, að koma inn í það og reyna að ná þessari breiðu samstöðu allrar þjóðarinnar. Þjóðin þarfnast þess. Það kann vel að vera að það þurfi að skerpa betur á þessu.

Aðalatriðið er þó það að samningurinn er gerður milli tryggingarsjóðsins og breskra og hollenskra yfirvalda. En ríkisábyrgðin stendur þar sem sjálfstætt plagg þannig að samningurinn stendur en ríkisábyrgðin er skilyrt, ekki samningurinn. Það má vera að þetta sé hártogun en þannig lít ég á það.