Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 11:41:24 (4410)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að gera hv. þingmanni upp eða ræða um þetta sem hártoganir. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að þetta sér skýrt, að það komi þá fram einhver túlkun á því hvað þetta þýði þannig að þingið geti farið áhyggjulítið eða haft minni áhyggjur af því að þarna séu tengsl að samningurinn tengist vitanlega óhjákvæmilega ríkisábyrgðinni. Hann tekur ekki gildi nema hún verði veitt þannig að það eru vitanlega tengsl þarna á milli. En hvort samningurinn er rétthærri en sú ábyrgð sem þarna er veitt og fyrir breskum dómstólum muni þetta falla okkur í óhag og allt slíkt, þetta finnst mér að þurfi að skýra. Það getur vel verið að sprenglöglærðir menn skilji þetta betur en margir aðrir þingmenn en ég held að fyrir þingheimi þurfi að skýra þetta.

Ég vil líka taka fram að auðvitað metum við það sem við gerum nú út frá hagsmunum þjóðarinnar, það er alveg ljóst. Við framsóknarmenn metum að það þurfi út frá hagsmunum þjóðarinnar að skerpa þetta enn þá meira. Það er þess vegna sem við stöndum í þessu þrasi núna.