Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 11:42:35 (4411)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir um margt ágæta ræðu. Ég er sammála honum um margt sem þar kom fram og sérstaklega þær efasemdir sem vakna við þetta mál varðandi lagalega þáttinn.

Í morgun flutti hv. þm. Björn Valur Gíslason, sem er varaformaður fjárlaganefndar og flokksbróðir hv. þm. Atla Gíslasonar, ræðu þar sem fram kom að hann taldi öll gögn málsins vera komin fram um miðjan júlí og sú vinna sem fram fór frá þeim tíma hafi ekki skipt sköpum. Mann setur hálfhljóðan þegar svona yfirlýsingar koma fram í þingsal á þessum tíma málsins. Mig vantar einfaldlega að fá fram afstöðu hv. þingmanns sem hér talar til þessa. Telur hann að þeir fyrirvarar sem settir hafa verið frá þessum tíma og komið inn í málið frá þessum tíma hafi skipt sköpum eða telur hv. þingmaður að hægt hafi verið að samþykkja óbreytt það frumvarp sem lagt var hér fram?