Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 12:18:43 (4425)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Skýringarnar sem gefnar voru af hálfu framkvæmdarvaldsins, af hálfu ríkisstjórnarinnar voru þær, og ég tel mig fara rétt með, að ríkislögmaður og fleiri lögmenn hefðu talið að beiting hryðjuverkalaga í Bretlandi væri svo opin, að Bretar gætu svo auðveldlega beitt þessum hryðjuverkalögum teldu þeir ástæðu til, að það væri langsótt fyrir Ísland og íslensku ríkisstjórnina að fara í málsókn þeirra vegna. Þetta var skýringin.

Frú forseti. Eftir á að hyggja og í ljósi alls þess sem gengið hefur eftir síðan í haust og frá því að fresturinn rann út að mig minnir 6. janúar hefði verið skynsamlegra að fara þá leið að mínu mati, að halda því opnu að geta farið í mál vegna beitingar hryðjuverkalaga og að íslenska ríkið og þau fyrirtæki sem þar urðu fyrir gætu höfðað skaðabótamál á hendur bresku ríkisstjórninni eða breska fjármálaráðuneytinu fyrir að beita þessum hryðjuverkalögum.