Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 13:17:03 (4428)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða þetta mikla og stóra mál sem snýst um Icesave. Við tókum til máls við 1. umr. Í millitíðinni hefur fjárlaganefnd lengi haft þetta mál til umfjöllunar og það má með sanni segja að málið allt hafi batnað mjög. Ég tel það að miklu leyti vera vegna þess að það er verið að fara eftir ákalli sem hefur verið bæði meðal þingmanna en líka úti í samfélaginu að menn komist út úr hjólförum flokksstjórnmálanna og reyni að hugsa málið eingöngu út frá íslenskum hagsmunum og þannig á ábyrgð okkar alþingismanna að vera.

Ég fór við 1. umr. yfir forsögu málsins, yfir þetta nöturlega mál og ætla ekki að gera það aftur nema ég ætla að undirstrika það að ábyrgð stjórnmálamanna er mikil en ekki síður viðskiptalífsins alls. Við eigum að læra af fortíðinni. Ég held að það sé algerlega óumflýjanlegt og ef við gerum það ekki hvort sem það eru stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar en ekki síður hinn viðskiptalegi heimur, ef við gerum það ekki mun verða langt í þá sátt sem flestir Íslendingar óska eftir í íslensku samfélagi. Þetta Icesave-mál er angi af því, þetta stóra mál.

Forsagan er öllum kunn. Hún er rakin í mörgum álitum, bæði meirihluta- og minnihlutaáliti, og hún er rakin í frumvarpinu sjálfu. En það er alveg ljóst, og við undirstrikuðum það þrátt fyrir forsögu málsins, að sá samningur sem við erum að ræða um hér er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og það er ekkert að því. Menn eiga ekki að fara undan í flæmingi og segja: Þið getið ekki verið að tala svona, þið sjálfstæðismenn, eftir alla forsöguna. Við erum ekki að tala um forsöguna eingöngu í þessu máli. Við erum að tala um þennan samning sem snýst um hagsmuni íslensku þjóðarinnar til framtíðar. Þá verðum við einfaldlega að fara yfir hann, koma með ábendingar, koma með tillögur til að úr þessu máli vinnist betur en upp var lagt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að margt hafi áunnist, m.a. fyrir þrautseigju stjórnarandstöðunnar en ekki síður ákveðins hóps innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem sá fram á það að þessi samningur er ótækur eins og hann var kynntur í þinginu. Við skulum gera okkur það ljóst að það var ekki meiri hluti á bak við þann samning sem var lagður fyrir þingið. Svo virðist sem, m.a. eftir ræður gærdagsins og andsvör af hálfu forsætisráðherra gagnvart hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að í ljós hafi komið að menn hafi skrifað undir samninginn 5. júní án þess að vera með ríkisstjórnina á bak við sig, án þess að búið væri að tryggja meiri hluta á þingi. Síðan munum við hvernig það var í upphafi þessa máls að við áttum ekki að fá að sjá samninginn o.s.frv. en hér er samningurinn eins vondur og hann er en þó hefur hann batnað verulega.

Ég hef það stundum á tilfinningunni að hægt hefði verið að leysa þetta mál miklu fyrr í sumar ef menn hefðu haft myndugheit og dug í sér af hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna að leysa þá hnúta sem greinilega voru orðnir ansi stórir, m.a. með því að draga alla stjórnmálaflokka miklu fyrr að þessu borði. En við skulum muna það að ríkisstjórnin skipti um verklag, hún breytti um samningamenn og fór fram með sínum hætti og þar með talið það sem er mjög alvarlegt að mínu mati og kemur vel fram í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna, að samninganefndinni var ekki falið það hlutverk m.a. að vinna út frá svonefndum Brussel-viðmiðum. Það var ekki tiltekið og það er lapsus af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa ekki gert þetta, slæleg vinnubrögð hvað þetta varðar. En það hafa allir metnað til að ná sem hagstæðastri niðurstöðu fyrir land og þjóð og þá verðum við einfaldlega að horfast í augu við málið eins og það er og mér hafa hugnast mjög þær breytingar sem við höfum gert og staðið fyrir á samningnum, þ.e. á ríkisábyrgðinni. Þess vegna er það óskiljanlegt ef ekki má tala tæpitungulaust og ég hélt fjandakornið — fyrirgefðu, frú forseti — ég hélt satt best að segja að við hefðum lært þó það af fortíðinni að við ættum að segja hlutina eins og þeir eru, ekki vera að tipla á tánum í kringum málið. Ég tel og taldi satt best að segja að þeir fyrirvarar sem fjárlaganefnd hefur beitt sér fyrir væru að gjörbylta samningnum, þeir væru að gjörbreyta málunum. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur talað um gagntilboð. Ég held að það sé nær sanni að tala þannig. En forsætisráðherra og fjármálaráðherra þora ekki að segja málin og draga þau fram eins og þau í rauninni eru.

Síðan kemur varaformaður fjárlaganefndar í ræðustól í morgun, annar af tveimur forustumönnum fjárlaganefndar þingsins sem ber ábyrgð á allri málsmeðferðinni í þinginu á þessum samningi og ríkisábyrgðinni, og segir að ekkert hafi breyst og þær breytingar hafi litla þýðingu því samningurinn sé hinn sami. Ég var ósammála þessum fullyrðingum m.a. af hálfu forsætisráðherra og fjármálaráðherra þegar þau sögðu að ekkert hefði í rauninni breyst, samningurinn væri sá sami. En síðan kemur varaformaður fjárlaganefndar og staðfestir þetta eftir alla meðferð þingsins á málinu. Þetta þarf að fá á hreint. Þess vegna vonast ég til þess að þegar fjárlaganefnd fær þetta mál aftur til meðferðar, hvenær sem það verður, hvort sem það verður í dag eða á morgun, þá fái hún almennilegan tíma til að fara í gegnum þær mikilvægu ábendingar sem hafa fallið innan þingsalar en ekki síður úti í samfélaginu. Ég kem að því síðar, m.a. ábendingar af hálfu Indefence-hópsins. Ég tel mikilvægt að það verði engin sýndarmennska, enginn leikur, einhver málamyndagerningur þegar fjárlaganefndin fær þetta mál aftur til meðferðar. Það er greinilegt að það þarf að hnykkja á ákveðnum atriðum því eins og staðan er í dag er algerlega óásættanlegt og ekki hægt að afgreiða málið út eins og það er kynnt og lagt fyrir í dag. Það er óvissa í málinu og óvissunni er ekki smyglað í gegn heldur er hún bara sögð þráðbeint fram og lögð beint á borðið af hálfu ekki bara forsætisráðherra og fjármálaráðherra heldur líka af öðrum forustumanni fjárlaganefndar þingsins. Þetta þurfum við að fá á hreint. Ef þetta eru ekki fyrirvarar sem halda þá mun ég ekki greiða atkvæði með þessum fyrirvörum. Þess vegna tel ég mikilvægt að fjárlaganefnd fari vel yfir þær ábendingar sem hafa verið settar fram og dragi sérstaklega fram að hún sé þá ósammála þeim orðum sem féllu hér í morgun af hálfu varaformanns fjárlaganefndar. Reyndar kom hv. þm. Atli Gíslason upp í andsvari áðan og sagðist vera ósammála þessari túlkun hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, varaformanns fjárlaganefndar, en þetta þarf að fá á hreint.

Indefence-hópurinn hefur komið með mjög athyglisverðar ábendingar sem ég vil taka undir. Ég vil taka undir sérstaklega það sem hópurinn hefur sett fram þar sem þeir segja og leggja fram þá tillögu að ef óljóst er að þessir fyrirvarar haldi gagnvart Bretum og Hollendingum, ef einhver óvissa er í málinu þá sé einfaldlega best að setja það inn í frumvarpið að samningarnir og ríkisábyrgðin taki ekki gildi nema þessir fyrirvarar sem settir hafi verið fram af hálfu okkar Íslendinga séu virtir og viðurkenndir. Þetta er mjög mikilvægt og ég er sannfærð um að fjárlaganefnd mun vinna á þessu máli. Hún hefur unnið málið vel fram til þessa og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að hún leggi mikinn metnað í það að skýra þetta mál mun betur fyrir landi og þjóð og þingi heldur en nú er. Það er bagalegt að menn skuli ekki finna til meiri ábyrgðar en svo að halda óvissu í þessu máli. Og talandi um tilfinningar, ég hef stundum á tilfinningunni að þetta mál skuli vera rekið með þeim hætti eins og raun ber vitni bara til þess eins að halda lífi í ríkisstjórninni.

Við vitum alveg hvað fór fram í hinum óteljandi herbergjum þingsins og skrifstofum bara til að lempa menn, þ.e. stjórnarliða — og hér brosir einn og veit nákvæmlega hvað um er að ræða. Það var nefnilega ekki meiri hluti fyrir samningunum þegar þeir voru lagðir fyrir þingið og það er verið að laga og svo sannarlega verður að laga það því að samningarnir eru vondir og alveg með ólíkindum að þetta skuli hafa verið sett fram með þessum hætti og ætlast til að ríkisábyrgðin yrði samþykkt allt að því órædd.

Við sjálfstæðismenn höfum dregið það fram að það hefur aldrei legið ljóst fyrir hvort það sé ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum. Það liggur ekki ljóst fyrir og við höfum alltaf haldið okkar rétti fram varðandi það að kalla til og draga fram okkar lagalega rétt. Þann rétt höfum við aldrei gefið eftir. Ég segi líka að í ljósi þess að Bretarnir voru sjálfir ekkert vissir um að ríkisábyrgðin væri til staðar, þeir spurðust fyrir um þetta mál sem sýnir að þeir voru ekkert vissir um að ríkisábyrgðin væri til staðar á þessu máli og ekki síður það að setja ríkisábyrgð inn í þennan samning með samþykkt þingsins, gera ráð fyrir því, segir manni það að menn gera ráð fyrir því að málið kunni hugsanlega að taka breytingum í meðförum þingsins. Því ekki telja Hollendingar og Bretar að þeirra þing sé eitthvað upp á punt. Íslenska þingið er það ekki. Íslenska þingið er ekki stimpilstofnun hvorki í þessu máli né öðrum hér innan lands eða utan. Það mátti því öllum vera ljóst þegar það var sett inn í ákvæði samninganna að það þyrfti að fara til þingsins að málið allt kynni að taka verulegum breytingum. Öðruvísi værum við þingmenn ekki að sinna okkar skyldum.

Það þarf sem sagt að tryggja það að fyrirvararnir haldi. Þetta þarf fjárlaganefnd að fara mjög vel yfir. Fjárlaganefnd þarf líka að fá upplýsingar um það hvaða svör, því við vitum að menn hafa verið að inna Hollendinga og Breta eftir svörum, fá viðbrögð þeirra við því sem rætt er um hér í þinginu, óformlega. Við þurfum að fá að vita hvaða svör hafa fengist í þessu efni. Fjárlaganefnd á að fara yfir það. Menn hafa verið að reyna að inna ríkisstjórnina eftir því hvaða skilning hún hefur á því hvenær ríkisábyrgðin rennur út. Það stendur nákvæmlega ekkert um það í samningnum heldur í breytingartillögu frá fjárlaganefndinni og þess vegna var mikilvægt að fá það fram í gær af hálfu forsætisráðherra að hún telur að ríkisábyrgðin renni út árið 2024. Hvað er þá því til fyrirstöðu að fjárlaganefnd setji það einfaldlega inn á milli 2. og 3. umr. fyrst búið er að segja þetta skýrt og skorinort? Ríkisábyrgð fellur úr gildi 2024 og ég tel mikilvægt að það verði sett inn í breytingar á milli 2. og 3. umr. þannig að það á ekki að vera neitt mál að hnykkja á því.

Það kann líka að vera að það verði ýmis önnur gögn, af því að það virðist vera á hverjum einasta degi, ólíkt því sem einmitt varaformaður fjárlaganefndar hélt fram 17. júlí, að í rauninni væri málið allt útrætt og allar stærðir þekktar, þá er það nefnilega þannig að svo virðist sem á hverjum degi komi nýjar upplýsingar fram. Við höfum fengið tillögurnar og ábendingarnar frá Ragnari Hall, þær hafa verið teknar inn sem betur fer, en það kann líka að vera að einhverjar upplýsingar komi fram m.a. í meðförum fjárlaganefndar sem stuðli að því að málið breytist aftur og aftur.

Ég hef litið þannig á að í rauninni þurfum við að fara í nýja samningagerð, svo miklar séu breytingarnar og fyrirvararnir á ríkisábyrgðinni, og þá verður einfaldlega að gera það. Við þurfum að halda mun betur — sem betur fer eru allir sammála um það, við þurfum að fara í þann leiðangur að kynna og markaðssetja okkar sjónarmið, okkar aðstæður því að málum virðist vera þannig háttað að í hvert sinn sem við ræðum frekar um aðstöðu okkar og aðstæður hér heima fyrir fáum við aukinn skilning á erlendri grund. Greinar í Financial Times sýna það, hvort sem það eru leiðarar eða aðrar greinar, og við eigum að nýta okkur það. Við verðum að fara að tala við vinaþjóðir okkar, bandalagsþjóðir til þess að fá þær til að öðlast skilning á okkar aðstöðu sem hér er. Því að aðstæðurnar í dag eru svo allt, allt aðrar en þær voru sl. haust þegar ríkisstjórnir Evrópu voru að fara af hjörum yfir alþjóðlegu fjármálakrísunni. Þess vegna voru að mínu mati viðbrögðin svona hörð eins og raun bar vitni fyrir utan það að Gordon Brown þurfti að hysja upp um sig brækurnar heima fyrir og reyna að skora pólitískar keilur, og þess vegna var Ísland kjörið tækifæri fyrir hann til þess að nýta sér. Alla þessa sögu þekkjum við. Við þurfum hins vegar, eins og ég gat um áðan, að læra af fortíðinni, en hluti af því er líka það að við þurfum að vera ákveðnari og markvissari, skipulagðari í vinnubrögðum þegar kemur að því að halda íslenskum hagsmunum á lofti. Það er allt að batna bæði innan stjórnkerfisins og líka utan þess. Ég tel mikilvægt að við eigum að fá til okkar bestu menn í þá veru sem halda utan um hagsmuni okkar. Við höfum fengið margar góðar ábendingar sem hafa nýst mjög vel frá frjálsum félagasamtökum, hvort sem þau heita Indefence eða öðrum einstaklingum eða samtökum, og við eigum að nýta okkur alla þessa þekkingu sem er til staðar innan lands og það vinarþel sem við finnum fyrir á erlendri grundu í dag þannig að staða okkar getur batnað.

Við sjálfstæðismenn viljum líka að sjálfsögðu eins og allir aðrir að þetta mál leysist. Við höfum sagt það að við höfum aldrei fyrirgert lagalegum rétti varðandi það að leita eftir því gagnvart dómstólum hver staða okkar er, sá réttur hefur aldrei verið gefinn eftir. Það er mikill misskilningur ef menn halda það að af því að við ákváðum að fara ekki í mál á grundvelli hryðjuverkalaganna höfum við fyrirgert rétti okkar gagnvart dómstólum varðandi Icesave-samningana. Það er mikill misskilningur, við höfum alltaf þann rétt og höfum ekki afsalað okkur honum.

Við höfum hins vegar sagt að við berum mikla ábyrgð í þá veru að reyna að leita pólitískra lausna. Við erum að reyna að gera það hér. Við sjálfstæðismenn höfum ekki nálgast þetta mál nú í sumar út frá því að vera bara í stjórnarandstöðu eins og var hér á árum áður, segja jafnvel hér í þingsal: „Étt'ann sjálfur“, eins og núverandi ráðherra í ríkisstjórn sagði í ákveðnu máli. Við höfum ekki farið þá leið heldur höfum við að mínu mati miklu frekar komið með mikilvægar ábendingar til þess að styrkja þetta mál allt, efla okkur og tryggja íslenska hagsmuni fyrst og síðast.

Þess vegna tel ég mikilvægt að þessu máli ljúki en þó og þá aðeins að fjárlaganefnd fái svigrúm, fái tækifæri, ekki til málamynda, frú forseti, fái tækifæri til þess að fara yfir þau atriði sem hafa komið fram hér í umræðum á þingi því að ég tel ákveðna þingmenn innan ríkisstjórnarflokkanna hafa stuðlað að því að þetta mál er komið í ákveðna óvissu. Þeirri óvissu þarf að eyða. Þess vegna gerum við þá skýlausu kröfu að farið verði eftir óskum okkar og ábendingum í fjárlaganefnd þegar hún hittist að lokinni umræðu og að farið verði gaumgæfilega yfir þá hluti sem hefur verið farið yfir hér í ræðu og riti reyndar líka.

Frú forseti. Það er greinilega margt eftir órætt í þessu máli. Við sjálfstæðismenn áskiljum okkur eftir sem áður allan rétt til þess að styðja þær tillögur sem stuðla að því að efla og styrkja málið og jafnframt að koma með aðrar tillögur líka. Það kann að vera í ljósi þróunar núna síðustu klukkustunda að það verði þörf á því.