Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 13:41:09 (4431)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sú samstaða mun halda af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hv. þingmaður sagði að gagnaðilunum hefði mátt vera ljóst að breytingar gætu orðið á meðförum í þinginu. Ég er algerlega sammála þessu. Að sjálfsögðu mátti þeim vera það ljóst að frumvarp um ríkisábyrgð gat annaðhvort verið samþykkt óbreytt, verið fellt eða tekið breytingum, það bara liggur í hlutarins eðli. Ég er ekkert feiminn við að segja að ég tel að þeir skilmálar, fyrirvarar sem felast í breytingartillögum fjárlaganefndar hafi verulegt vægi, þeir skipta að sjálfsögðu máli. Hvernig við nálgumst það nákvæmlega í orðavali er að mínu mati ekki aðalatriðið vegna þess að sumir segja eins og hv. þingmaður: Hér var vondur samningur, við erum að gera hann betri. Aðrir nálgast málið og segja: Þetta var þokkalegur samningur, við erum að gera hann betri. Það sem skiptir máli er innihaldið.

Ég hef ekki orðið var við það að á milli okkar sem stóðum að breytingartillögunum á vettvangi fjárlaganefndar hafi verið neinn ólíkur skilningur á gildi þeirra breytingartillagna sem við leggjum fram. En ég hef tekið eftir því að það hafa ýmsir aðrir verið með alls konar formúleringar um þær, formenn stjórnmálaflokkanna, bæði ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna, sem eru ekki alveg í takt. En af minni hálfu og okkar sem stóðum að þessum tillögum úr fjárlaganefnd held ég að sé enginn ágreiningur um það hvað þessar tillögur þýða í raun.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að við ræðum það þá betur á vettvangi fjárlaganefndar milli umræðna af því að það hefur gefist tilefni til þess. Við munum því að sjálfsögðu beita okkur fyrir því að það verði gert, en ég vona að það séu ekki nein teikn á lofti um það að sú góða samstaða sem hefur náðst á vettvangi fjárlaganefndar — og er þjóðarnauðsyn að mínu mati — kunni að vera í einhverju uppnámi vegna einhverra orða sem hér hafa fallið.