Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 13:47:53 (4434)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst athyglisvert en um leið þykir mér nokkuð vænt um að þeir sem hafa verið í andsvari eru annars vegar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, og síðan hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar. Báðir þessir menn í þessum stóru málum sumarsins, annars vegar ESB-aðildarumsóknarumræðan og hins vegar Icesave-umræðan hafa gert sér far um það að vinna málin mun betur, alla vega mun betur heldur en ríkisstjórnin hefur sent þau frá sér. Þar komum við alltaf að þessum þvergirðingshætti sem hefur truflað og stíflað öll mál. Við þekkjum söguna um þvottakonur fortíðarinnar en við erum að tala um í rauninni tvo hv. þingmenn sem eru að verða þvottamenn nútímans og nútíðarinnar, þ.e. þeir þurfa alltaf að vera að vaska upp, þvo upp og reyna að taka til eftir ríkisstjórnina og reyna að lempa og reyna að tengja þingið til að tryggja íslenska hagsmuni. Ég veit ekki hversu miklum tíma hefur verið sólundað í það af því að menn eru þrjóskari heldur en allt getur verið innan þingsins en síðan koma þessir ágætu herramenn og reyna þó að gera það sem hægt er að gera.

Varðandi fyrirvarana og á ríkisábyrgð er mjög mikilvægt að draga þetta fram eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson gerði, draga fram, og við erum sammála um það, að þingið er ekki þessi sjálfkrafa stimpilstofnun fyrir ríkisábyrgðir. Það er ekkert vandamál fyrir mig. Ég hef áður staðið hér í þrefi um það og verið ósammála því að veita ríkisábyrgð og það fyrir nokkuð mörgum árum. Það sama er í þessu máli. Það stórt og mikið mál, samviskumál líka fyrir þingmenn að taka afstöðu í jafnviðamiklu máli er snertir ríkisábyrgð og mikla fjármuni til lengri tíma fyrir þjóðarbúið.

Ég vil hins vegar nýta þetta tækifæri í andsvari mínu og koma með spurningu til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar um það hvort hann muni ekki taka vel í þær tillögur sem m.a. Indefence-hópurinn hefur lagt fram í máli sínu varðandi fyrirvarana og hvort væri ekki hægt að undirstrika þá betur með því að tengja þá formlega inn í frumvarpið sjálft.