Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 13:50:15 (4435)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara til að svara þessu síðasta þá held ég að það liggi í hlutarins eðli að við munum að sjálfsögðu skoða þessar athugasemdir. Ástæðan fyrir því að við förum þessa fyrirvaraleið byggir á m.a. leiðbeiningum frá þjóðréttarfræðingi sem hefur sagt okkur skýrt og skorinort, og undir það hafa lögfræðingar sem unnið hafa með okkur tekið, að okkur sé heimilt að setja fyrirvara, það sé Alþingi sem ráði eins og ég sagði áðan.

Það hefur líka komið fram og við settum það inn í breytingartillögurnar að þar stendur skýrum stöfum, og var breyting á 1. gr., að fyrirvararnir eru óaðskiljanlegur hluti af samningnum, þ.e. það er tekið alveg klárt fram að fyrirvararnir séu hluti af samningnum. Þessu til viðbótar fengum við minnisblað þar sem ítrekað var að þegar við erum búnir að setja okkar fyrirvara og afgreiða málið hér, Alþingi, þá þarf að fara í að ganga frá samningunum milli aðila um lánið. Þá er fyrirvari okkar uppi á borðinu þannig að þá koma til þeir aðilar sem fyrir hönd tryggingarsjóðsins og hins vegar samningsaðilanna munu vinna málið og að sjálfsögðu geta þeir ekki veitt lánið eða samþykkt það án þess að þessir fyrirvarar liggi fyrir. Það stendur einmitt í áliti þessa þjóðháttarfræðings, með leyfi forseta: „Ljóst er að ekki verður gengið frá umræddum lögfræðiálitum sem þarf til“ — til að taka lánið — „fyrr en afstaða breskra og hollenskra stjórnvalda til fyrirvaranna liggur fyrir og því er tryggt að samningarnir öðlast ekki gildi fyrr en réttarstaðan er að fullu ljós.“

Eftir þessu munum við að sjálfsögðu ganga, þ.e. við skilum þessu frá Alþingi með klárum fyrirvörum sem takmarkar ábyrgð okkar við ákveðnar forsendur eins og hér hefur komið fram í breytingartillögunum. Þá tekur við þetta ferli sem er að taka lánið og það er klárt að þá eru fyrirvararnir forsenda fyrir láninu. Mér finnst þetta vera afar skýrt og við eigum ekki sem Alþingi að vera að leita ráða hjá öðrum um það hvaða fyrirvara við setjum. Það erum við sem veljum þá og ég tel að það sé mikilvægt að við séum sátt og sammála um það því þá hafa þeir enn þá meira vægi.