Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 14:22:13 (4443)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fór yfir það ræðu minni áðan að ég tel að málið þurfi að klárast hér í þinginu með þeirri efnislegu umfjöllun sem þörf er á. Ég tiltók það sérstaklega að mér þætti engin ástæða til þess að þingið færi í sumarfrí. Við þurfum að klára þetta með sóma, við getum gert það og þurfum að sýna þau vinnubrögð sem eru þinginu sæmandi. Við getum ekki farið á handahlaupum í gegnum þetta. Þá segja þeir sem eru mér ekki sammála að þetta hafi nú aldeilis fengið umfjöllun allar þessar vikur í þinginu, en við erum bara stödd á þessum stað í dag eins og málið er. Við erum hér í dag. Það eru enn þá ýmsir þættir sem þarf að fjalla um, þar á meðal er stærsti þátturinn, þ.e. sá hvaða þýðingu fyrirvararnir hafa. Það er náttúrlega mál númer eitt, tvö og þrjú og það er atriði sem verður að fara í á milli umræðna. Hvort það verður virðulegur enskur lögmaður sem kemur hér til að gera það eða einhver annar sérfræðingur ætla ég ekki að gera neinar sérstakar kröfur um. Ég treysti mínu fólki í fjárlaganefnd og þeim sem þar sitja til þess að vega það og meta hvaða aðilar eru best bærir til þess að draga ályktanir um þetta, en vissulega mætti ætla að virðulegur, reyndur breskur lögmaður gæti veitt ráðgjöf að þessu leyti.