Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 14:30:07 (4448)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég ætla ekki að leyna því að í opinberri umræðu höfum við framsóknarmenn legið undir því ámæli að vera að mála okkur út í horn í þessari umræðu um þennan samning og þessa skuldbindingu sem mögulega er verið að fara að setja yfir íslensku þjóðina og sumir fjölmiðlar hafa viljað mála mynd flokksins ansi dökka í þeim efnum. En ég vil fagna því að í dag og í gær eru margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og jafnvel annarra flokka að taka undir þau sjónarmið sem við framsóknarmenn höfum lagt fram í þessum efnum að það sé í raun og veru ekki hægt að samþykkja þennan samning með þessum fyrirvörum eða eins og hann lítur út í dag. Þess vegna er nauðsynlegt að taka málið aftur inn til fjárlaganefndar og fjalla um mörg álitaefni til viðbótar. Mér heyrist því á umræðum hér að framsóknarmenn á Alþingi hafi ekki verið að mála sig út í horn, það séu fleiri að komast á það að eitthvað þurfi að breyta þessu frekar, a.m.k. þurfi að fjalla mun meira um þetta mál heldur en verið hefur, enda er um eitt stærsta mál lýðveldissögunnar að ræða.