Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 14:31:21 (4449)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á er þetta eitt stærsta mál lýðveldissögunnar sem hér er um rætt og því væri í hæsta máta mjög óeðlilegt ef þingmenn vildu ekki tjá sig mikið um það og jafnframt einhverjir þeirra leggja fram einhverjar breytingartillögur þannig að ég einfaldlega er ánægð með það að framsóknarmenn hafi þó eitthvað til málanna að leggja og tel það ágætt. Hins vegar hafa breytingartillögurnar ekki fengið mikla umræðu í umfjöllun þingsins. Það er því kannski ráðlegt fyrir hv. þingmenn framsóknarmanna að fara að gera breytingu þar á og fara að kynna þessar breytingartillögur og tala fyrir þeim í þinginu.