Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 15:28:50 (4460)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg skýrt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn vinnur í þessu máli. Við erum eins og Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin í stjórnarandstöðu. Við stýrum þessu ekki. Það er þingmeirihluti fyrir vinstri stjórn í þinginu og það er hann sem stýrir málinu. Við höfum hins vegar lagt mikið á okkur til að reyna að breyta þessu máli. Það getur vel verið, virðulegi forseti, að það sé ekki pólitískt klókt. Það getur vel verið að það hefði verið skynsamlegra að reyna að slá pólitískar keilur með því að haga hlutum einhvern veginn öðruvísi en það er bara allt of mikið undir, virðulegi forseti.

Hv. þingmaður spyr hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki beita sér fyrir því að farið verði vel yfir málið á milli 2. og 3. umr. í nefnd og allir þættir skoðaðir til að kanna að þetta sé eins geirneglt og mögulegt er og svarið er mjög einfalt. Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn mun gera allt til að ganga þannig frá málinu að það sé enginn vafi á því að þingið verði búið að setja þá fyrirvara til að afstýra þeirri hættu sem liggur undir ef þessi samningur verður samþykktur óbreyttur. Þess vegna, virðulegi forseti, eftir ræðu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar í morgun, fóru allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem það gátu í andsvar. Þess vegna kviknaði á öllum viðvörunarbjöllum og þess vegna höfum við ítrekað enn og aftur að við munum taka þann tíma sem þarf og við munum standa hér og tala eins lengi og þarf ef það verður til þess að við sjáum að við getum bjargað því sem bjargað verður. Það er algjörlega ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn mun gera allt sem í hans valdi stendur til að hjálpa til í þessu máli.