Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 15:39:32 (4465)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Það mætti auðvitað tala um þetta mál í marga daga en ég hygg að þingið hafi í þeim gögnum sem liggja fyrir þessari umræðu, ályktun og öðrum fylgigögnum, reifað málið býsna vel og ekki miklu við það að bæta nema örfáum sjónarmiðum svona við lok 2. umr. um þetta stóra og mikilvæga mál.

Icesave-málið snýst auðvitað fyrst og fremst um ábyrgð. (Gripið fram í: Ríkisábyrgð.) Það snýst um ríkisábyrgð já, fjárhagslega ábyrgð en það snýst líka um ábyrgð þjóða, það snýst um siðferðilega ábyrgð, um pólitíska ábyrgð, um ábyrgð stjórnmálanna og viðskiptanna. Ég held að við getum sagt með nokkrum sanni núna þegar málið er að komast á lokastig í þinginu að Alþingi hafi sýnt mikla ábyrgð í umfjöllun um þetta mál. Ég vil fá að nota þetta tækifæri og hrósa sérstaklega þeim þingmönnum sem hvergi komu nærri aðdraganda þessara mála og áttu engan þátt í aðdraganda þeirra, sem eru þingmenn í ýmsum flokkum, sem standa að þessari niðurstöðu fyrir þá ábyrgð sem þeir með því sýna. Ég vil líka hrósa þeim þingmönnum í stjórnarandstöðu sem kannski áttu aðild að málum áður fyrr en ákveða engu að síður þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu að standa að þessari niðurstöðu fyrir þá ábyrgð sem þeir sýna vegna þess að þjóðkjörnir fulltrúar í þeim sporum eru sannarlega að taka á sig og axla mikla ábyrgð með sinni afstöðu. Ábyrgð segi ég vegna þess að það væri auðvitað býsna auðvelt að styðja ekki málið og segja: Málið er vont, við þurfum ekki að borga, við eigum ekki að borga, það var rangt að því staðið vegna þess að auðvitað er ömurlegt að þurfa að styðja málið. Málið er ömurlegt. Það felur það í sér að almenningur er að axla ábyrgð á rekstri einkaaðila og því tjóni sem þeir hafa valdið, íslenskur almenningur, sem fyrir er í gríðarlega miklum erfiðleikum í kjölfar hrunsins. Þetta er ekkert smávegis tjón. Þetta er annað stærsta tjónið í hruninu. Ásamt með gjaldþroti Seðlabankans er þetta stærsti reikningurinn sem íslenskum heimilum er sýndur vegna fjárhagshrunsins. Það sýnir þess vegna alveg sérstaklega málefnalega afstöðu þegar þingmenn stjórnarandstöðu og sömuleiðis þingmenn sem engan hlut áttu að aðdraganda hrunsins standa að því að leggja til samþykkt málsins hér á Alþingi og samþykkt þess samnings sem gerður var og þeirra mikilvægu fyrirvara sem hafa verið settir í málinu vegna þess að auðvitað eru menn öðrum þræði að gangast nauðugir undir þessar skuldbindingar vegna þess að aðdragandi málsins er einfaldlega með þeim hætti að þeir meta svo að hagsmunum Íslands sé skást borgið með því að fara samningaleiðina með þessum hætti en eru auðvitað ósáttir við ýmislegt í málinu og m.a. um þá lagalegu óvissu sem í málinu er um þá galla sem voru á löggjöfinni og kannski ekki síst þann yfirgang sem við sem þjóð höfum á köflum þurft að sæta í málinu.

Það sýnir þess vegna mikla yfirvegun og mikla umhyggju fyrir framtíð landsins að horfast engu að síður í augu við það þó að menn beri ekki beina ábyrgð á landstjórninni að það er gríðarlega mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands og framtíð Íslands að fá þetta mál úr veginum til þess að við getum haldið áfram hinu efnahagslega endurreisnarstarfi til þess að við getum lokið hinu mikla hruni í bærilegri sátt við alþjóðasamfélagið og við getum farið að snúa okkur að þeim viðfangsefnum sem við blasa í atvinnulífinu og hjá fólki. Um leið og ég vil hrósa þingmönnum fyrir að sýna þá ábyrgð sem að þessu máli standa, sem eru þó ekki alveg allir þingmenn en langflestir, þá vil ég líka segja að mér finnst á hinn bóginn kannski hafa verið hallað býsna mikið á samninganefndina í málinu og tek undir með hv. þingmanni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að það er á köflum býsna ómaklega gert því að skoði menn erindisbréf samninganefndarinnar var henni fyrst og fremst falið að gera lánasamning. Það sem við erum við afgreiðslu málsins að gera er að við erum ekki að breyta meginatriðum lánasamningsins sjálfs, þ.e. um vaxtakjör eða greiðslutíma og aðra slíka þætti eins og venja er í lánasamningum, enda vextirnir nokkuð sérstakir og greiðslufresturinn sem við fáum, sjö ár, auðvitað líka býsna sérstakur ásamt með endurskoðunarákvæðinu.

Það er þó rétt að nefna í því sambandi að það skorti á um samráð við lögfræðinga Seðlabankans um einstök ákvæði í samningunum og gott að úr því hefur verið bætt bæði með skýringum frá samningsaðilunum eftir að samningar voru undirritaðir og eins með þeim fyrirvörum sem hér hafa verið lagðir fram. En í aðalatriðum held ég að lánasamningurinn sé bara sæmilegur lánasamningur miðað við slíka samninga. Það sem verkefnið hér hefur verið er að setja rammann um ríkisábyrgðina. Sú umfjöllun er öll um pólitískar forsendur málsins vegna þess að hér eru gríðarlega stór pólitísk álitamál og í alþjóðlegum samskiptum okkar og um hina lögfræðilegu fyrirvara sem við sem þjóð viljum setja um málið og í samskiptum okkar við aðrar þjóðir sem aldrei var hægt að ætlast til að embættismannanefnd axlaði. Það hlaut alltaf að vera verkefni þingsins.

Einhverjir telja að við hefðum þá kannski átt að taka þá umræðu sem hér hefur farið fram í sumar áður en við sendum samninganefndina og það er auðvitað sjónarmið. Ég er ekki viss um að við höfum verið í færum til þess, við höfum yfir höfuð ekki verið í stakk búin til þess rétt í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar í vetur með það pólitíska ástand sem þá var auk þess sem það hefði trúlega ekki verið mjög farsælt að senda menn af stað með einhliða skilmála af hálfu þingsins. Þess vegna sé þessi langi og erfiði ferill vonandi að reynast hafa skilað okkur farsælli niðurstöðu með því að við þingmenn, og raunar stór hluti þjóðarinnar, með mikilli umfjöllun í allt sumar og með þeim fyrirvörum sem hafa verið settir að við höfum náð eins skaplegri niðurstöðu í þetta mál og hægt er að hugsa sér við þær aðstæður sem við búum við. Sú umfjöllun hefur verið ítarleg og vönduð en hún hefur líka oft einkennst af ótta og það er ekki nema eðlilegt.

Við erum sem þjóð oft og tíðum óttaslegin eftir hrunið um framtíðina. Það er ekki nema eðlilegt að þegar traust manna hefur horfið meira og minna, þegar kerfið hefur hrunið að þá óttist menn um framtíð sína og ég held að það hafi kannski verið stærsta áhyggjuefni manna, þ.e. getum við borgað þetta? Um það fengum við að fjalla nokkuð í efnahags- og skattanefnd. Það er alveg ljóst að hér er um gríðarlega miklar skuldbindingar að ræða. Eins og menn geta lesið um í umsögn meiri hluta efnahags- og skattanefndar eru forsendurnar fyrir því að hér verði næstu 15 árin sambærilegur hagvöxtur við það sem verið hefur síðustu 15 ár. Ég tel að sá efnahagslegi fyrirvari sem hv. fjárlaganefnd hefur sett við samningana taki einmitt mið af þessu og gangi mjög langt í því að tryggja það að hér verði efnahagslegar forsendur fyrir þeim greiðslum sem við þurfum að inna af hendi. En um leið og sá fyrirvari gengur mjög langt held ég að viðsemjendur okkar hljóti að fallast á að hann sé innan marka samningsins vegna þess að auðvitað er það þannig að það greiðir engin þjóð meira en hún getur. Og í því fólst ákveðin viðurkenning af hálfu gagnaðilanna þegar þeir gáfu okkur sjö ára greiðslufrest að við þyrftum tíma til að vinna okkur út úr erfiðleikum og það kynni að þurfa á því að halda áður en til greiðslna kæmi að taka upp viðræður enda endurskoðunarákvæði í samningunum sem hefur þó með þeim fyrirvörum sem nú eru komnir inn í samninginn að mörgu leyti fyrst og fremst verið miklu betur útfært.

Þeir lagalegu fyrirvarar sem settir eru við málið eru líka mjög mikils virði og ganga langt en um leið hljóta viðsemjendur okkar að taka mið af því að þar er fyrst og fremst verið að leggja áherslu á það við hvaða aðstæður taka þarf upp viðræður. Það er eðli málsins samkvæmt í jafnstóru og erfiðu viðfangsefni og hér um ræðir að ef stór atriði breytast eða ganga fram með öðrum hætti en ráðgert hefur verið þá þarf að taka upp viðræður aftur. Þessir fyrirvarar, bæði hinir efnahagslegu og hinir lagalegu, þó þeir gangi langt, eru settir fram í góðri trú og fyrst og fremst um þau atriði sem telja verður að sé eðlilegt að setja í samningum þjóða.

Hér hefur nokkuð verið rætt um það hvort þetta sé nýr samningur eða hvort samningurinn standi. Ég held að við eigum að reyna að standast þá freistingu að fara í slíkt karp. Ég held að það þjóni ekki hagsmunum Íslands við þessar aðstæður að kalla það að við höfum hafnað þeim samningi sem fyrir liggur því það er mikilvægt hvaða skilaboð við erum að senda til umheimsins. Það er mikilvægt að við sendum þau skilaboð að við öxlum sannarlega mikla ábyrgð og miklar skyldur í þessum efnum. Við skorumst ekki undan í því en við setjum þá sjálfsögðu fyrirvara sem sjálfstæðar þjóðir þurfa að setja við slíkar aðstæður og þau eðlilegu skilyrði sem hver þjóð hlýtur að gera. Þau skilyrði rúmast innan þess samnings sem við höfum gert. Þau eru vissulega viðauki við hann enda eru skilmálarnir eða fyrirvararnir órjúfanlegur þáttur af ríkisábyrgðinni. Ég held að með þessari leið hafi eftir mikla umfjöllun og mikla rýni tekist að finna leið sem tekist hefur að skapa um ótrúlega víðtæka sátt í þinginu og ég vona meðal þjóðarinnar allrar, sem sé þess eðlis að viðsemjendur okkar hljóti og verði að fallast á að fyrirvararnir séu málefnalegir og innan marka þess sem gert var, enda verður ekki fram hjá því litið að þeir eru auðvitað ekki ábyrgðarlausir í málinu. Það er ekki alfarið og eingöngu á ábyrgð Íslands og að sjálfsögðu höfðum við áður en til samningaviðræðnanna var gengið sett niður Brussel-viðmiðin sem voru öðrum þræði pólitísk viðmið og forsendur fyrir samningagerðinni sem að mörgu leyti er verið að árétta og ítreka í þeim fyrirvörum sem nú eru settir.

Ég geri ráð fyrir því að það geti tekið nokkurn tíma að ljúka 3. umr. og afgreiðslu málsins í þinginu. Menn eiga ekki að rasa um ráð fram í því heldur gefa því þann tíma sem til þarf en við hljótum samt að leggja áherslu á mikilvægi þess að í efnahagsuppbyggingu landsins höldum við áfram og reynum svo fljótt sem auðið er að segja skilið við þennan þátt í uppbyggingunni og koma á þeirri endurskoðun og næsta áfanga í samstarfi okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og endurreisn efnahagslífsins. Og líka, og það er auðvitað ekki síður um vert, að ganga fram í því að rannsaka það sem úrskeiðis fór og olli hruninu, bæði vegna þess að þeir skattgreiðendur sem munu þurfa að standa skil á því að hluta eða miklu leyti eiga heimtingu á því en líka til þess að um leið og við sýnum viðsemjendum okkar sterka og mikilvæga fyrirvara við þeim samningum sem við höfum gert þá sýnum við líka í verki að okkur sé full alvara í því að fylgja eftir rannsóknum þeirra mála sem úrskeiðis fóru og ollu því mikla tjóni almenningi bæði á Íslandi og í nágrannalöndum okkar sem nú er viðfangsefni þingsins og ríkisstjórna þeirra landa að fást við að leysa úr.