Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 15:55:48 (4467)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og andsvarið. Hv. þingmaður er trúlega að vísa til þess að það voru skiptar skoðanir um það í efnahags- og skattanefnd hvort rétt væri að ljúka umfjöllun nefndarinnar og vísa því til hv. fjárlaganefndar með þeim umsögnum sem þar voru gerðar. Það var einfaldlega af þeim ástæðum, svo ég skýri það fyrir hv. þingmanni, að það var mat okkar að það skipti máli að ljúka umsögnum utanríkismálanefndar þar sem ég á sæti og síðan efnahags- og skattanefndar þannig að ljúka mætti málinu og ná samningum um fyrirvara og aðra slíka hluti á einum stað, þ.e. í hv. fjárlaganefnd.

Við sögðum í umsögn okkar, meiri hlutinn, að við beindum því til fjárlaganefndar að huga að efnahagslegum fyrirvörum og að í meginatriðum væri forsenda þess að við gætum staðið við þessar skuldbindingar að hér yrði hagvöxtur 3% á ári næstu 15 árin.