Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 15:56:55 (4468)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég mætti kannski fá að túlka svör hv. þm. Helga Hjörvars þá er hann að segja að aðkoma hans að þessu tvennu sem ég spurði um, annars vegar því að fá úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á greinargerð Seðlabankans og greinargerð fjármálaráðuneytisins hafi verið nákvæmlega engin þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því hjá fjárlaganefnd að gerð yrði úttekt á greiðslugetu þjóðarbúsins til að standa undir Icesave-skuldbindingunum og hins vegar því að aðkoma hans að því að móta hina efnahagslegu fyrirvara hafi verið nákvæmlega engin. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti svarað því með já eða nei hvort aðkoma hans hafi verið einhver.