Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 16:01:45 (4473)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það hafi sýnt sig að vera farsælt að koma málinu öllu inn í fjárlaganefnd þannig að menn gætu einbeitt sér þar og held ég að hafi ekki veitt af að það væri á einum stað enda tók nætur og daga og langan tíma að vinna úr málinu þó að það væri allt á einum stað. Auðvitað var sjálfsagt að sú nefnd nýtti sér sérfræðiþekkingu sem til er hjá þingmönnum og eins úti í stofnunum. Ég held að efnahags- og skattanefnd hafi gefið ágætlega glögga mynd af þeim efnahagslegu forsendum sem þyrfti til að geta staðið skil á þessum skuldbindingum.

Um það hvort hér eigi að setja inn ákvæði gagnvart Bretum og Hollendingum með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsti geri ég ráð fyrir því að sá mikli meiri hluti í hv. fjárlaganefnd sem að því stóð að taka málið út til 2. umr. hafi gengið vel og kirfilega úr skugga um að þessir fyrirvarar haldi og að þeir séu með þeim hætti að þeir haldi líka gagnvart (Forseti hringir.) viðsemjendunum. Ég treysti því bara að málið sé þannig búið en er tilbúinn til að skoða það ef einhver önnur sjónarmið eru uppi.