Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 16:32:37 (4483)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get gert þá játningu í upphafi máls míns að ég hef alltaf verið svolítið pólitískt skotinn í hv. þm. Eygló Harðardóttur, ég hef oft hrifist af málflutningi hennar. Hún flytur mál sitt af röggsemi og oft af djúpum skilningi. Ég verð samt að segja að málefnalega er ég svo að segja ósammála hartnær öllu sem hv. þingmaður sagði áðan.

Ég kem þó ekki upp til að lýsa því sérstaklega yfir. Yfirferð hv. þingmanns um fortíð Framsóknarflokksins var næsta nöturleg, en það er hún sem er bestur dómari á fortíð og sögu Framsóknarflokksins. Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þá ógæfusögu sem rekja má Icesave-málið til er vitaskuld einkavæðing ríkisbankanna. Það er hins vegar ekki hægt, og er a.m.k. misskilningur hjá hv. þingmanni að hægt sé að tengja það með einhverjum hætti við hinn gamla Alþýðuflokk sem ég sat í, og m.a. í ríkisstjórn fyrir á sínum tíma með núverandi hæstv. forsætisráðherra.

Það er rétt að á þeim tíma komu fram hugmyndir um að einkavæða ríkisbankana í þeirri ríkisstjórn, í þeim þingflokki sem ég sat í og stýrði um tíma. Þær tillögur voru lamdar út af borðinu af tveimur ungum þingmönnum sem þá sátu í þingflokknum, séra Gunnlaugi Stefánssyni og núverandi utanríkisráðherra. Sé einhverjum um að kenna að ríkisbankarnir voru einkavæddir með þeim hætti sem síðar varð og leiddi til þessarar langvinnu ógæfusögu er ekki hægt að rekja það til gamla Alþýðuflokksins, það er miklu frekar hægt að rekja það til þess flokks sem hv. þingmaður átaldi hvað harðast í sínum málflutningi, og það var ekki Alþýðuflokkurinn gamli. Og það var ekki Samfylkingin. Það var ekki einu sinni Sjálfstæðisflokkurinn, það var Framsóknarflokkurinn, það var sá flokkur sem hv. þingmaður er fulltrúi fyrir hér á þingi sem hún átaldi hvað harðast. Ég ætla ekki einu sinni að lýsa yfir samþykki við það, hún þekkir málið betur en ég.