Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 16:34:49 (4484)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð líka að viðurkenna að ég hef alltaf verið svolítið pólitískt skotin í hæstv. utanríkisráðherra og hef oft litið til hans sem ákveðinnar fyrirmyndar minnar í ræðustóli. Ég skal líka viðurkenna að ég sé alveg fyrir mér að ég taki jafnvel einhvern tímann við ráðuneytinu af honum. Það er hins vegar allt annað mál.

Ég ætla að benda á að það eru sögulegar staðreyndir að einkavæðingarferlið, hugmyndafræðin að því að einkavæða ríkisfyrirtæki, hófst einmitt í tíð Viðeyjarstjórnarinnar. Það sem er kannski meira og stærra mál — ég veit ekki betur en að það hafi verið formaður Alþýðuflokksins sem sló sér mest upp á því að hafa landað EES-samningnum. Ýmsir í þessum ræðustól og utan hafa hans bent á að það er tilskipunin um innstæðutryggingarsjóð sem gerir það að verkum að við ræðum nú um þessa óútfylltu ávísun á íslenska þjóðarbúið.

Hins vegar varðandi það að Framsóknarflokkurinn eigi að axla ábyrgð algjörlega á þessu máli finnst mér gjörsamlega fáránlegt. Ég vísa til ummæla hæstv. viðskiptaráðherra þar sem hann talaði um glannaskapinn í tíð fyrri ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og líka orða hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þar sem hann vitnaði í grein fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, Jóns Sigurðssonar. Í þeirri grein rakti Jón aðdraganda Icesave-málsins og hvernig þau mál fóru gjörsamlega úr böndunum í ráðherratíð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem ég veit ekki betur en að sé einmitt þingflokksformaður Samfylkingarinnar enn þá þannig að ég get ekki séð að hann hafi axlað neina ábyrgð á gjörðum sínum. Hann hefur ekki einu sinni mætt hér í ræðustól til að taka til máls í þessari umræðu.