Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 17:08:08 (4491)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég ætla ekki að eyða meira af tíma mínum í þessum umræðum í að ræða það hvort fyrirvararnir séu utan eða innan samninga. Það er einlæg skoðun mín og sannfæring að fyrirvararnir nái ekki inn í samningana og því sé um nýtt samningstilboð að ræða.

Þar sem hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd langar mig til að varpa þeirri spurningu fram aftur í dag sem ég varpaði fram í gær. Var grundvöllur gagnvart ríkisábyrgð íslenska innstæðutryggingarsjóðsins aldrei ræddur að nokkru ráði í fjárlaganefnd eða fenginn til þess sérfræðingur eða lögbær maður sem gat úrskurðað um hann? Frakkar höfnuðu því að franska ríkið væri ábyrgt fyrir franska innstæðutryggingarsjóðnum árið 2000 og svo féll dómur hjá Evrópusambandinu 2002 í þá veru að ríki mættu ekki ábyrgjast innstæðutryggingarsjóði af samkeppnisástæðum. Staldraði nefndin ekki við þetta ákvæði þar sem við erum með fullgildan EES-samning eins og málin standa þar til honum er jafnvel sagt upp eða hvernig sem það verður, því er hótað mjög í þessari umræðu, og samkeppnisákvæðin rúmast innan fjórfrelsisins og þá gilda um okkur evrópsk samkeppnislög og þar sem Evrópudómstóllinn sem er æðsti dómstóll Evrópusambandsins alls komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri brot á samkeppnislögum Evrópusambandsins, hvers vegna í ósköpunum geta þá Bretar og Hollendingar farið fram á það við okkur nú árið 2009 að við hreinlega brjótum Evrópureglur varðandi samkeppnislög með því að knýja okkur og pína okkur til að veita ríkisábyrgð?