Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 17:13:41 (4495)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir prýðilega ræðu. Hann fór ágætlega yfir þetta óvenjulega mál og fór ágætlega yfir vinnuna hvað málið varðar. Þetta er mjög merkilegt mál að því leytinu til að þeir aðilar sem hafa þvælst mest fyrir því eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sérstaklega þeir sem eru í forustu í ríkisstjórn. Og af því að hv. þingmaður talaði mikið um þátt hæstv. heilbrigðisráðherra þá er alveg ótrúlegt að þetta hafi verið tekið og sett inn í þingið gegn vilja hæstv. heilbrigðisráðherra því það liggur alveg fyrir að hann samþykkti aldrei þetta mál. Ég held að það hljóti að vera einsdæmi að svona sé á málum haldið. Því var hæstv. heilbrigðisráðherra í fullum rétti að beita sér eins og hann gerði sem betur fer og við skulum vona að hæstv. heilbrigðisráðherra standi áfram í lappirnar í þessu máli. En ég furða mig mjög á því, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, hvað í rauninni er lítil umræða um þennan þátt málsins.

Ég skil hv. þingmann svo að hann muni áfram vinna að málinu, hann líti svo á að það skipti máli að hnýta lausa enda og taka þann tíma sem þarf til þess. Það er ekki markmið að taka tíma bara til að taka tíma en ég held hins vegar að það hafi ekki hjálpað málinu að sífellt sé verið að reyna að senda skilaboð til fjölmiðla og annað að það sé búið að semja um hitt og þetta og búið að loka hinu og þessu. Þetta er ákveðinn spuni hjá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar. Það hjálpar ekki málinu og ég lít svo á að hv. þingmanni finnist mikilvægt að ná góðri lendingu í málinu og taka þann tíma í vinnu nefndarinnar sem þarf til að svo megi verða.