Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 17:21:54 (4503)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:21]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Auðvitað á sú niðurstaða að byggja á því að þjóðin geti verið sátt til framtíðar, það er jú það sem við stefnum öll að og það sem við stefnum að með þessari þverpólitísku samstöðu, það er einmitt að sameina þjóðina á bak við þetta mál. Þetta mál er það stórt og það viðamikið og það sem fram undan er í öðrum málum, til að mynda fjárlög og annað þar sem ég hygg að ég og hv. þingmaður verðum að öllum líkindum ekki sammála varðandi einstaka þætti, að það er gríðarlega mikilvægt að við förum samhent inn í þetta mál því að þetta er mál allra flokka og þetta er mál sem á ekki að vera á pólitískum grunni. Hvorki þingið né þjóðin á að vera að klofin í því.