Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 17:45:25 (4506)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Það hefur margt mjög gott komið frá Indefence-hópnum. Að sjálfsögðu er þetta skoðunarvert en samkvæmt því sem margir þingmenn Framsóknarflokksins hafa haldið fram í umræðunni eru ákvæði í samningnum sem gera hann nærri því óbreytanlegan að mörgu leyti, sem kveða á um að ekki megi takmarka innihald hans með einhverjum fyrirvörum. Ég mundi gjarnan vilja, svo að ég væri búinn að sverja af mér allan grun, fá óháðan aðila sem væri sérfræðingur í enskri löggjöf til að yfirfara það. Ég held að það væri best. Annars hef ég tekið fullt mark á öllu sem hefur komið frá Indefence-hópnum í þessu máli. Eins og ég sagði í minni stuttu ræðu eiga þeir aðilar sem þar hafa stýrt málum hrós skilið og sagan mun áreiðanlega dæma þann félagsskap ágætlega. Ég efast ekki um það.

En af því að hv. þingmaður kom upp í stutt andsvar vil ég spyrja hann hvort það sé eitthvert samkomulag á milli Sjálfstæðisflokksins annars vegar og stjórnarflokkanna hins vegar um lyktir málsins, þ.e. fyrirvarana, og hvort hann telji að það hafi verið rétt aðfaranótt laugardagsins að taka málið úr nefnd þá í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn metur málið á allt annan hátt en stjórnarflokkarnir gera. En á meðan standa sumir stjórnarliðar, og þá aðallega í Samfylkingunni, hér upp og segja að Framsóknarflokkurinn sé einangraður meðan menn hafa náð annars ágætri og víðtækri sátt við aðra stjórnmálaflokka á Alþingi vegna þess að ég hef í mörgum ræðum á þingi skynjað það að sjálfstæðismenn séu að mörgu leyti ekki svo ýkja ósammála málflutningi framsóknarmanna í þessari umræðu.