Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 17:52:24 (4509)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það líður að því að komnir verði 12 mánuðir í að við náum þeim tíma sem þetta hófst allt saman hjá okkur en strax eftir hrunið var tekin ákvörðun um að reyna samningaleiðina við vinaþjóðir okkar í þeim alvarlegu málum sem voru komin upp.

Fljótlega kom í ljós og lá í raun fyrir að lagaleg óvissa væri í málinu. Sú lagalega óvissa er enn vomandi yfir. Það kom á óvart hversu mikilli óbilgirni og hörku við mættum, sérstaklega frá Bretum og Hollendingum, í þessum málum. Þegar reynt var að fara svokallaða gerðardómsleið á sínum tíma kom í ljós að hún var ófær hreinlega vegna afstöðu þeirra. Við urðum því að draga það til baka og reyna að fara aðrar leiðir. Haldinn var fundur með Bretum og Hollendingum fyrir tilstuðlan Frakka þar sem náðist í raun mjög mikilvægur áfangi, svokölluð Brussel-viðmið, en þau fjalla um að tekið skuli tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Það er á þeim forsendum og með þau viðmið í huga sem þingsályktunartillaga um að leita samninga við viðsemjendur okkar er samþykkt.

Í nefndarálit meiri hluta voru sett mjög skýr viðmið fyrir því hvernig farið skyldi í þær samningaviðræður og við hvaða forsendur skyldi miða, þ.e. að tryggt yrði að tekið yrði tillit til hinna erfiðu aðstæðna sem nú eru uppi á Íslandi og ekki verði fallið frá þeim lagarökum sem Ísland hefur sett fram en fallist á að leita samninga á grundvelli sameiginlegra viðmiða. Það er ítrekað alveg sérstaklega að miðað verði við að samningarnir taki mið af sérstakri og fordæmislausri stöðu landsins.

Áður en þessi vinna er komin í fullan gang tekur við ný ríkisstjórn, þann 1. febrúar, og skipuð er ný samninganefnd og þeir aðilar sem kannski harðast höfðu gengið fram í gagnrýni á vinnubrögð fyrri ríkisstjórnar og á gagnrýni á því að ganga ætti til samninga við okkar viðsemjendur um lausn málsins eru þeir sem tóku við. Það er í raun mjög fróðlegt að rifja upp yfirlýsingar sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra í því sambandi og hæstv. forsætisráðherra á þar einnig sinn skerf. Þessi nýja samninganefnd er síðan skipuð undir stjórn Svavars Gestssonar og í vinnulagi hennar er þeim grundvallarákvæðum ekki haldið til haga sem utanríkismálanefnd hafði sett í samþykkt sinni frá því í desember. Það má því segja að samninganefndin hafi gengið til viðræðna á röngum forsendum, ekki á þeim forsendum sem þingið var búið að gefa. Það má segja að hún hafi gengið til samninga á þeim forsendum að ríkið væri greiðsluskylt og því væri einungis verið að semja um greiðslukjör sem kæmu fram í áðurnefndum samningum. Það væri því eingöngu verið að fjalla um heildarfjárhæð skuldbindinganna — heildarfjárhæð skuldbindinga væri ekki samningsatriði heldur var verkefnið að semja um sem hagstæðasta skilmála. Þetta er náttúrlega langt í frá að vera þau skilyrði sem þingið hafði sett fyrir þessum samningaviðræðum.

Til að fara fljótt yfir sögu fer niðurstaða úr þessum viðræðum að birtast okkur og í kringum það verður til alveg ótrúlegur farsi, alveg ótrúleg framkoma forustumanna ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra alveg sérstaklega.

Það var þann 3. júní sem hæstv. fjármálaráðherra var spurður um það í þinginu hver væri staða mála í þessum viðræðum og hvort það væri að koma að undirritun samninga. Hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, svaraði því þannig til að viðræður og þreifingar milli aðila hefðu gengið hægar en ætlunin hefði verið og sagði svo, með leyfi forseta: „Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Þetta er það sem hæstv. fjármálaráðherra segir í þinginu þann 3. júní. Daginn eftir fáum við fréttir af því að viðræður eru stöðvaðar og það fer fram kynning í þingflokkunum og í utanríkismálanefnd og víðar á þeim drögum og þeirri stöðu sem þá var komin upp í samningaviðræðunum. Það er nauðsynlegt að rifja það upp með hvaða hætti sú kynning var vegna þess að hún var alveg með eindæmum. Við vorum boðaðir á þingflokksfund, sjálfstæðismenn og okkur var tilkynnt að Svavar Gestsson, formaður samninganefndarinnar, kæmi á fundinn til að fara yfir samninginn með okkur en okkur var jafnframt sagt að hann hefði hámark 15 mínútur til að kynna okkur þetta mikilvæga mál. Og það verður að segjast eins og er að sú kynning var algjörlega í skötulíki og þegar formaður samninganefndarinnar fékk faglegar spurningar frá þingmönnum innan þingflokksins gaf hann þau svör að það væru aðrir sem hefðu séð um þá þætti, hann væri ekki vel inni í þeim.

Þetta er það sem í raun vekur upp alla þá tortryggni sem síðan er búin að vera í gangi gagnvart þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru og það vantraust sem vissulega ríkir gagnvart ríkisstjórninni í þessu máli og þeirri samninganefnd sem fór með málið fyrir hennar hönd.

Hæstv. forsætisráðherra sparaði ekki yfirlýsingarnar þegar hún lýsti því að hér væri um frábæran samning að ræða, samninganefndin hefði skilað frábæru starfi. Þetta var mært af hálfu ríkisstjórnarinnar fram og til baka, samningurinn væri mjög viðkvæmur og það mætti alls ekki sýna hann, það væri ekki hægt að birta hann með frumvarpinu. Það er algerlega með eindæmum, virðulegi forseti, að slík vinnubrögð skuli hafa verið viðhöfð í svo mikilvægu máli.

Hvað upplifðum við síðan? Samningurinn var birtur í vefmiðlum. Áður en hv. þingmenn fengu hann til að fjalla um hann eða skoða hann birtist hann í vefmiðlum. Er þetta trúverðugleiki? Er þetta það sem við þurfum? Eru þetta vinnubrögð sem við þurfum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar þegar við fjöllum um eitt mikilvægasta mál sem Alþingi Íslendinga hefur fjallað um á lýðveldistíma?

Eftir birtingu samningsins tók andstaðan að magnast. Það kom í ljós að hér var bara um opinn víxil að ræða. Það var einfaldlega þannig að við hefðum ekki getað fengið verri niðurstöðu þó að dómstólaleiðin hefði verið farin og það hefði verið dæmt okkur í óhag í öllum skilyrðum. Það vekur upp spurningar um hvað valdi því að hæstv. forsætisráðherra, hæstv. ríkisstjórn skuli geta komið fram fyrir þjóðina og fram fyrir þingið og sagt að hér sé um frábæran árangur að ræða og frábæran samning. Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að sú vinna sem fram undan var við að koma í gegn ESB-málinu, að við óskuðum eftir aðild að Evrópusambandinu, eigi einhverja tengingu vegna þess að það er einhvern veginn þannig með hv. þingmenn Samfylkingarinnar og hæstv. ráðherra hennar að þeir virðast vera tilbúnir að fórna öllu fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þeir virðast vera tilbúnir að fórna öllu. Samfylkingin er tilbúin að lúta í gras fyrir hverju sem er bara til að koma því eina máli áfram sem á að vera lausn allra okkar vandamála.

Það er fróðlegt að líta í stefnuskrá þess flokks sem birt var fyrir alþingiskosningarnar þar sem segir að bara við það að skila inn umsókninni, þann dag sem við mundum skila inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu færi allt að snúa til betri vegar. Er það reyndin? Hafa vextir lækkað? Hefur gengið tekið að styrkjast? Hefur trú á Íslandi aukist eitthvað við það? Nei, virðulegi forseti. Ekki enn. Þannig er það.

Það er í raun mikil gæfa fyrir þetta þing og fyrir þessa þjóð að á Alþingi skuli hafa verið fólk sem var tilbúið til að standa upp og standa í lappirnar í þessu máli. Það er mikil gæfa að hér skuli hafa verið ákveðnir þingmenn Vinstri grænna sem voru tilbúnir til að hlusta, tilbúnir til að skoða málið aðeins lengra vegna þess að ef ekki hefði verið fyrir það, þá væri þetta mál afgreitt og það fyrir mörgum vikum síðan með þeim skelfilegu afleiðingum sem það gæti haft í för með sér. Við stöndum í þakkarskuld við þetta fólk og við stjórnarandstöðuna á þessu þingi fyrir að hafa staðið saman eins og raun ber vitni. Við stöndum í þakkarskuld við það fólk í samfélaginu sem upp á eigin spýtur hefur fundið sig knúið til að kafa í þetta mál, sérfræðingar á mörgum sviðum, kafa í þessi mál, koma upp með sjónarmið, leggja á sig gríðarmikla vinnu án þess að vera beðið um það, hafa gert þetta af þjóðfélagslegri skyldu, skyldu við þjóð sína þegar þetta fólk sá hvert stefndi. Menn stóðu í lappirnar. Menn stóðu í lappirnar í ríkisstjórnarflokkunum, þeir sem voru fylgjandi þessu þrátt fyrir kunnuglegar hótanir Samfylkingarinnar um að stjórnarslit lægju við. Sú hótun sem þeir virðast kunna einir og sér og forustumenn þeirra að stappa niður fótum í frekju ef ekki er farið að þeirra óskum og kröfum.

Niðurstaðan er sú að það er að skapast breið samstaða í þessu mikilvæga máli. Það er að skapast breið samstaða á þinginu og það hefur margt mjög gott komið fram við 2. umr. málsins sem enn mun bæta það vonandi á milli 2. og 3. umr., mun gera það enn sterkara þannig að þjóðin og þingið geti haft trú á því að við séum að feta rétta leið. Framsóknarmenn segjast vilja ganga lengra en við hin sem höfum efasemdir í þessu og viljum setja fyrirvara, segjast vilja ganga lengra, vísa málinu frá og vísa því til ríkisstjórnarinnar til að fara í samningaviðræður aftur. Ég er þessu ósammála, einfaldlega vegna þess að mín skoðun er sú að þeir fyrirvarar sem er verið að vinna að að setja við málið gangi lengra en frávísunartillaga. (Gripið fram í: En ef þeir merkja ekki neitt?) Þeir merkja, það er ekki hægt að segja að fyrirvarar eins og þeir eru orðaðir í þessu samkomulagi og í þessari niðurstöðu fjárlaganefndar séu marklausir. Þá er þetta þing marklaust og þarf ekki að fjalla um málið, hv. þingmaður. (BJJ: Spurðu Indefence.) Ja, það hafa komið fram sjónarmið sem er sjálfsagt að taka tillit til milli 2. og 3. umr., m.a. er þar vitnað í að við þurfum að styrkja þessa fyrirvara. Indefence-hópurinn, sem á heiður skilinn fyrir sína vinnu, hefur sent þingmönnum skeyti í dag og fjölmiðlum held ég fréttatilkynningu þar sem þeir benda á að það sé einföld leið til að eyða þessari óvissu með því að tryggja að í lagatextanum sjálfum komi fram að lögin um ríkisábyrgð taki ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar hafi viðurkennt fyrirvarana sem í þeim felast. Að mati lögmanna þeirra kæmi slík viðurkenning í veg fyrir að fyrirvararnir falli ómerkir fyrir breskum dómstólum komi til ágreinings vegna samninganna. Þetta þarf auðvitað að skoða milli 2. og 3. umr. Það er markmið okkar sem erum að berjast fyrir því að þessir fyrirvarar fari inn í frumvarpið, verði marktækir og gangi alla leið og séu skýrir. Þess vegna tel ég að þeir gangi lengra en frávísunartillaga sem segir ekkert annað en að taka eigi upp samningaviðræður aftur. Í mínum huga er það alveg skýrt að þetta kallar á samningaviðræður að nýju við okkar viðsemjendur. Hér er um gagntilboð að ræða eins og það hefur verið orðað.

Það er vissulega áhyggjuefni hvernig sumir stjórnarþingmenn hafa kosið að túlka þessa fyrirvara og að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra og hv. þm. Björn Valur Gíslason með sínum yfirlýsingum í dag, varaformaður fjárlaganefndar, skuli tala með þessum hætti er auðvitað ekki til neins annars fallið en að rýra samstöðuna sem hér er verið að vinna að og grafa undan þeirri vinnu sem hv. þingmenn í fjárlaganefnd hafa lagt svo mikið í undanfarnar vikur. Að þetta sé ekki gagntilboð og þetta rúmist innan núverandi samnings er í raun alveg með ólíkindum að láta sér detta í hug.

Samþykki viðsemjendur okkar, virðulegi forseti, þá fyrirvara sem hér eru settir fram hafa þeir einfaldlega gert sér grein fyrir því að þeir voru með í höndunum samning sem ekki fékk staðist. Þeir voru í raun með þá vissu í höndunum að samningurinn væri óraunhæfur og staðfestu um leið mjög slök vinnubrögð samninganefndar okkar.

Ég held að dramatíseraðar umræður eins og hafa verið um aðdraganda málsins og að fara í gamlar söguskýringar um hverjum sé að kenna og hverjum ekki skili okkur ekki langt við þessar aðstæður. Við erum með fyrir framan okkur tvo afarkosti í þessu máli. Það er annars vegar að samþykkja það, samþykkja það og vinna af heilindum að því að fara samningaleiðina sem við höfum ákveðið að fara eða fella það og taka þeim afleiðingum sem eru óvissar. Í því felst lagaleg óvissa. Mitt mat er, og ég hvet hv. þingmenn til að líta raunsætt á málið og skoða það, að þeir fyrirvarar sem nú liggja fyrir séu gerbreyting á þessu máli. Við verðum að nota tímann milli 2. og 3. umr. til að skerpa gildi þeirra, taka tillit til þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram í umræðunni. Ég treysti hv. fjárlaganefnd til að fara í þá vinnu, skila henni fljótt og vel, taka sér þó þann tíma sem til þarf vegna þess að við verðum að fara að komast út úr því að þetta mál taki allan okkar tíma. Við verðum að fara að geta snúið okkur að því, virðulegi forseti, að horfa lengra til framtíðar.

Fram undan eru mikilvæg skref sem ég hef miklar áhyggjur af og eru þjóðinni ekki síður mikilvæg en það hver niðurstaða verður í þessu máli. Það er hvernig við ætlum að byggja upp okkar samfélag. Þar hef ég miklar áhyggjur af stefnu stjórnvalda eða stefnuleysi vil ég kannski frekar segja.

Það hefur ítrekað komið fram hjá þeim sem fjalla um stöðu Íslands í dag að aukin atvinnuuppbygging á grundvelli nýtingar náttúruauðlinda sem er það svar sem við höfum, sú viðspyrna sem við höfum til að koma okkur á lappirnar aftur. Þar er verið að draga lappirnar. Þar er þessi hæstv. ríkisstjórn að draga lappirnar. Þau eru með ólíkindum ummæli hæstv. fjármálaráðherra um að ekki sé víst að viljayfirlýsing við fyrirtæki eins og Alcoa verði endurnýjuð. Það er alveg með ólíkindum að umhverfisráðherra skuli hafa talað um að gefa eftir þann árangur sem við náðum í Kyoto-viðræðunum á sínum tíma, núna í loftslagsviðræðunum í desember. Þetta eru stóralvarleg mál. Niðurskurður í samgöngumálum eru þau verkefni sem við getum sprautað inn í atvinnulífið og eru okkur lífsnauðsynleg. Það eru þessi verkefni, virðulegi forseti, sem við verðum að fara að komast í. Við erum að horfa á atgervisflótta úr landi í mörgum stéttum og það er þessari þjóð mjög alvarlegt þegar okkar unga og efnilega fólk fer úr landi og það unga og efnilega fólk sem gat hugsað sér að koma frá útlöndum heim að loknu námi kemur ekki heim.