Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 18:43:50 (4520)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:43]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir innlegg hans í þessa umræðu og verð í sjálfu sér líka að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir það skref sem hann ásamt öðrum þingmönnum úr Vinstri grænum tóku í að nálgast þetta mál sem við erum að fást við með öðrum hætti en ríkisstjórnin lagði upp með. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að tvennu: Er það rétt, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki svarað, að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafi aldrei borið þennan samning upp innan ríkisstjórnarinnar til að fá samþykki hennar fyrir að leggja fram þetta stjórnarfrumvarp? Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra vegna þess að hér hafa komið fram í dag vangaveltur um að fyrirvararnir standist einfaldlega ekki og þá hefur komið fram frá þjóðréttarfræðingi í utanríkisráðuneytinu að það sé brýnt að samningsaðilum okkar, þ.e. Bretum og Hollendingum sé með einhverjum hætti tilkynntir þessir fyrirvarar og áður en Icesave-samningurinn öðlist gildi séu þeir búnir að viðurkenna þá fyrirvara til að enginn vafi leiki á um þá réttarstöðu sem þá íslenska ríkið sem ábyrgðaraðili standi frammi fyrir.