Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 19:56:42 (4534)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu, en mig langar að spyrja hann að dálitlu umfjöllunarefni sem ég fór yfir í ræðu minni fyrr í dag. Það er að nú er Alþingi búið að ganga í gegnum þessa málsmeðferð sem hefur tekið langan tíma og hefur verið vönduð í ýmsa staði en það hafa verið ýmsar blikur á lofti. Ég vildi halda því fram að við þingmenn ættum að draga ákveðinn lærdóm af þessu öllu saman.

Nú hefur hv. þingmaður tjáð sig mikið og oft hér í þingsölum um það hvernig störfum þingsins er háttað. Mig langar að fá það fram hjá hv. þingmanni hvað hann vill læra af þessari málsmeðferð og hvað það er helst sem hann telur að hafi áunnist varðandi það samstarf sem hér hefur ríkt um þetta mál.