Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 20:54:58 (4544)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég heyrði reyndar bara seinni hlutann af henni en hann var mjög góður og vil ég þakka henni fyrir það. Ég vil líka þakka henni og þeim sem stóðu með henni í því að koma í veg fyrir að þetta frumvarp færi óbreytt í gegnum þingið. Ég tek ofan fyrir því hugrakka fólki.

Ég tek undir þau orð sem féllu hjá henni um að verið væri kúga íslenska þjóð. Það er verið að beygja okkur til að gera eitthvað sem okkur ber ekki að gera, eða alla vega skildi ég orð þingmannsins þannig að alþjóðastofnanir og erlend ríki eru að beita okkur slíku.

Á vefnum Amx.is er grein í dag þar sem vitnað er í fjármálaráðherra Hollands 3. mars sl. þar sem hann segir að það innstæðukerfi sem nú hefur bognað og við erum látin taka skellinn af var ekki hugsað til þess að verja bankana í kerfishruni heldur eingöngu til að verja hvern og einn banka. Þetta eru orð fjármálaráðherra Hollands. Ég ætla að vona að hvert orð á þessu þingi verði þýtt fyrir þessa ágætu menn þannig að þeir viti hvernig Íslendingum er innan brjósts. Fjármálaráðherra Hollands hefur viðurkennt að þetta kerfi sem er verið að pína okkur til að verja var ekki byggt upp með þetta í huga.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi orða hennar og þess sem hefur farið fram á Alþingi, ekki síst í dag — og ég ítreka þakkir mínar til hennar og þeirra sem hafa staðið með henni í þessari baráttu — hvort hún taki undir það með mér að nauðsynlegt sé að skýra markmið og tilgang þeirra fyrirvara settir hafa verið, skýra þá enn frekar og kveða skýrt á um það til hvers þeir eru og hvaða áhrif þeir munu hugsanlega hafa, í það minnsta að það komi skýrt fram hver meining Alþingis er með þessum fyrirvörum.